Kveikjur

62 Kannastu við þetta hljóð sem ryksugan gefur frá sér þegar slökkt er á henni? Sérðu samlíkinguna í því? Taktu líka eftir því hvernig Elías sér fyrir sér að myrkrið skelli á. Oft sjá börn hlutina öðruvísi fyrir sér en fullorðnir og fullvíst er að pabbi Elíasar hafði ekki í huga risastórt lok þegar hann sagði þetta. En af hverju bregðast foreldrarnir svona við? „Þetta er alveg rétt hjá pabba þínum,“ sagði hún, „þú getur beinbrotnað ef þú dettur á hjólinu.“ „Ég hef oft dottið án þess að brotna. Ég hef aldrei beinbrotnað á hjólinu,“ svaraði ég og sá strax eftir því. Ef maður segir eitthvað svona þá kallar pabbi það „að ögra örlögunum“ og mamma byrjar strax að berja undir borðið og segja „7 – 9 – 13“. Það er galdraþulan hennar og hún á að koma í veg fyrir óhöpp. Það getur vel verið að hún komi í veg fyrir einhver óhöpp og það er þá eins gott því mamma er alltaf að lenda í einhverju og hún hefði ekki undan ef þulan bjargaði ekki helmingnum. Svo ég flýtti mér að bæta við: „Ég skal fara mjög varlega og koma heim í hádegismat á réttum tíma.“ Yfirleitt verða þau svo fegin ef ég segist ætla að koma heim á ákveðnum tíma að þau gleyma öllu öðru. En í þetta sinn héldu þau bara áfram að horfa á mig eins og horft er á fárveikt fólk í sjónvarpinu sem maður veit af músíkinni að er alveg að fara að deyja. Mér leið ekkert vel að láta horfa þannig á mig. Ég fann beinlínis hvernig beinin í mér molnuðu niður og liðuðust í sundur. Svo ég gekk afar varfærnislega aftur á bak út úr eldhúsinu og gætti þess að reka mig ekki í dyrastafinn svo handleggurinn brotnaði ekki og sagði glaðlega: „Simbi bíður, maður á aldrei að láta fólk bíða eftir sér.“ Þetta hafa þau sjálf sagt og ég var að leyfa þeim að sjá að ég hefði lært þetta. Samt urðu þau ekkert ánægð, heldur andvörpuðu og horfðu hrygg hvort á annað. Af hverju fer mamma Elíasar að berja undir borðið og segja „7 –9 –13?“ Hvernig á slík galdraþula að koma í veg fyrir óhöpp? Þekkirðu fleiri dæmi um svona hjátrú? Og hvernig tónlist er leikin undir í bíómyndum þegar fársjúkt fólk er að fara að deyja? Ég lokaði hurðinni hljóðlega á eftir mér. En um leið og ég var búinn að því þá fann ég hvernig ég var aleinn á stigapallinum, fullur af beinum sem gátu brotnað hvenær sem var. Þess vegna hélt ég með báðum höndum í stigahandriðið og gekk lafhægt niður. Simbi sá mig koma lekandi svona niður stigann og spurði strax: „Er eitthvað að þér, Elías?“ Og ég svaraði lágt svo það kæmu ekki sprungur í kjálkana: „Ég er víst svo óskaplega brothættur.“ Þá fór Simbi líka að horfa annarlega á mig. Það lá við að ég félli saman. Kannski var ég að verða ónýtur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=