Previous Page  7 / 108 Next Page
Information
Show Menu
Previous Page 7 / 108 Next Page
Page Background

5

Inngangur :

SKAPANDI SKÓLI

Grunnskólakennarar í hópi höfunda eru allir þrír við störf í grunnskóla og saman-

lögð reynsla þeirra í kennslu og við fjölbreytt verkefni á öllum stigum grunnskólans

telur ein 50 ár. Háskólakennarinn í hópnum tekur aftur mið af áralöngu samstarfi í

kennaramenntun við unga kennaranema sem eru að stíga sín fyrstu spor á vettvangi

skólastarfs og starfandi kennara úr öllum landshornum. Þau viðfangsefni sem hér er

að finna eru því margreynd og óhætt er að staðhæfa að þau „virki“. Að því sögðu er

rétt að taka fram að hver kennari finnur að sjálfsögðu sínar eigin leiðir við útfærslu

verkefna og aðferða og byggir þær á sinni fyrri reynslu, auk þess að laga viðfangsefn-

in að þörfum, getu og áhuga þess nemendahóps sem um ræðir hverju sinni. Í því

liggja einmitt töfrar kennarastarfsins; mæta þarf hverjum nemanda og hverjum hópi

með sveigjanleika og opnu hugarfari og vera tilbúin(n) að takast á við þá áskorun að

verkefni taki á sprett í aðra átt en upphaflega var ætlað og nýta það sem leið til náms.

Uppbygging bókarinnar er í stórum dráttum þannig að auðvelt á að vera að nýta hana

sem uppflettirit og óþarft að lesa hana spjalda á milli til að hún nýtist við kennslu.

Bókin skiptist í sjö meginhluta. Fyrst er stutt umfjöllun um skólastarf og breytt hlut-

verk kennara á 21. öld. Þá er litið í verkfærakistuna og tíndar til ýmsar aðferðir fyrir

nútímakennara að nota sem kveikjur, til að skipta í hópa eða hanna verkefni. Næst

kemur umfjöllun um nokkrar kennsluaðferðir ásamt hugmyndum að verkefnum sem

hentað geta hverri og einni aðferð. Þar á eftir fer sérstakur kafli um hlutverkaleiki,

rauntengt nám og útikennslu. Þá er fjallað um ritun til læsis, ritun til náms og leiðir

til skapandi ritunar. Því næst koma hugmyndir og umfjöllun ummargvíslega notkun

miðla og tækni þar sem nemendur öðlast reynslu og afla þekkingar með allra handa

efnisgerð, ekki síst einfaldri kvikmyndagerð af ýmsu tagi en líka prentgagnagerð,

hönnun skjákynninga, forritun og tölvuleikjasmíð. Að síðustu er svo fjallað um

námsmat og hvernig þar má beita fjölbreyttum aðferðum eins og í öllu öðru í skóla-

starfinu.

Aftast í bókinni er atriðisorðaskrá til hægðarauka fyrir lesendur. Bókinni fylgir

svo vefur sem ætlað er að leggja fram eða vísa á frekari umfjöllun um viðfangsefni

bókarinnar. Á vefnum má finna ítarefni tengt hverjum hluta bókarinnar, bjargir eins

og gátlista, verkefni, ábendingar um netslóðir og fleira hagnýtt.

Það er von okkar að bókin og vefurinn sem henni fylgir geti orðið kennurum á öllum

stigum grunnskólans hagnýtt tæki að grípa í til glöggvunar þegar þeir vilja dusta

rykið af gömlum og góðum aðferðum, kynnast áhugaverðum leiðum í kennslu eða

útfæra hönnun og framsetningu verkefna á nýjan hátt.

Sigrún Björk, Margrét, Björgvin Ívar og Torfi