Þjóðsaga segir að áður fyrr hafi kerling að nafni Katla verið ráðskona hjá munkunum á Þykkvabæjarklaustri og töldu menn að kerlingin væri göldrótt. Hún átti brók þess eðlis að sá sem fór í brókina gat hlaupið og hlaupið án þess að þreytast. Smali á Klaustrinu hét Barði. Eitt sinn fór Katla til veislu með munkunum. Barði var heima og gætti fjárins. Hann skyldi vera kominn með það allt heim áður en veislugestir kæmu til baka. Þegar Barði sá að það gæti hann ekki tók hann brækur Kötlu og fór í þær og gat þá hlaupið uppi allt féð og komið því heim. Katla sá að Barði hafði tekið brækurnar. Hún reiddist mjög. Hún tók smalann og drekkti honum í sýrukeri. Enginn vissi hvað orðið hefði um Barða. Leið svo tíminn. Smátt og smátt minnkaði sýran í kerinu og þá heyrði fólk kerlingu tauta: „Senn bryddir á Barða.“ Þegar kerling sá að Barði var að koma í ljós í kerinu og að allt myndi komast upp, fór hún í brókina og hljóp til fjalla og upp á jökul. Þar steypti hún sér ofan í djúpa gjá og sást aldrei eftir það. Skömmu seinna kom mikið hlaup úr jöklinum og stefndi á klaustrið. Töldu menn að því ylli Katla með fjölkynngi sinni. Var gjáin síðan kölluð Kötlugjá og landið sem eyddist þegar flóðið fór yfir það Kötlusandur.   

(Brydda á – koma í ljós, fjölkynngi - galdrar.)

© 2011 Sigrún Helgadóttir

Loka glugga