Talið er að Snorri Sturluson hafi skrifað Eddu í kringum árið 1220 en hún er handbók í skáldskaparfræðum. Í formálanum (prologus) er fjallað um sköpun heimsins og upphaf trúarbragða og þar segir orðrétt um átrúnað formæðra okkar og feðra:

Það hugsuðu þeir og undruðust hví það myndi gegna er jörðin og dýrin og fuglarnir höfðu saman eðli í sumum hlutum og þó ólík að hætti. Það var eitt eðli að jörðin var grafin í háum fjalltindum og spratt þar vatn upp, og þurfti þar eigi lengra að grafa til vatns en í djúpum dölum. Svo er og dýr og fuglar að jafnlangt er til blóðs í höfði og fótum.

Önnur náttúra er sú jarðar að á hverju ári vex á jörðinni gras og blóm og á sama ári fellur það allt og fölnar. Svo og dýr og fuglar að vex hár og fjaðrir og fellur af á hverju ári.

Það er hin þriðja náttúra jarðar þá er hún er opnuð og grafin, þá grær gras á þeirri moldu er efst er á jörðinni. Björg og steina þýddu þeir móti tönnum og beinum kvikinda.

Af þessu skildu þeir svo að jörðin væri kvik og hefði líf með nokkrum hætti, og vissu þeir að hún var furðulega gömul að aldartali og máttug í eðli. Hún fæddi öll kykvendi og hún eignaðist allt það er dó. Fyrir þá sök gáfu þeir henni nafn og töldu ætt sína til hennar. (Snorri Sturluson, bls. 9–10).

(© 2003 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga