Undirbúningur
Kennari útbýr spjöld með orðum yfir alls kyns fyrirbæri, sól, plöntur, dýr og ýmsa aðra hluti bæði náttúrulega og manngerða. Spjöldin þurfa að vera jafnmörg nemendum og þannig að þeir geti fest þau á sig. Kennarinn semur síðan sögu sem tengir þessa hluti saman.

Efni
Ofannefnd spjöld, snæri eða sterkt garn í hnykli.

Leikurinn

  1. Nemendur draga sér spjald og hengja það á sig.

  2. Nemendur geta staðið í reglulegum hring en einnig er gaman að láta þá standa í óreglulegum hópi þannig að spottinn vefjist um þau alla vega um leið og hnykillinn gengur á milli manna.

  3. Kennarinn lætur nemandann með spjaldinu sól fá hnykilinn og síðan hefur hann lestur sögunnar.

  4. Um leið og nefnd eru þau fyrirbæri sem á spjöldunum standa er hnyklinum hent til viðkomandi nemanda. Sá sem fær hnykilinn rekur ofan af honum, heldur laust um spottann og hendir hnyklinum svo til þess sem næstur er nefndur.

  5. Sagan heldur áfram þangað til allir nemendur eru tengdir þræðinum á þann hátt að hann liggur laus í hendi þeirra. Gæta þarf þess að nemendur haldi ekki fast um þráðinn.

  6. Þá gerist eitthvað í sögunni sem hefur áhrif á einhvern sem í lífsvefnum stendur. Viðkomandi togar þá í spottann og spurt er: „Hver finnur fyrir því að togað er í þráðinn?“ Þeir sem finna fyrir að togað er segja frá. Þetta er endurtekið nokkrum sinnum.

  7. Umræður: Hvernig stendur á því að svo margir finna fyrir því þegar eitthvað gerist í umhverfinu? Allt er tengt og hvað öðru háð. Getum við rakið nokkur slík tengsl?

  8. Dæmi um sögu:
    Sólin skín á grasið svo að það vex. Kindur éta gróður og eiga það til að trufla spóann sem býr til hreiður í grasinu. Spóinn étur gjarnan ánamaðka sem lifa í moldinni. En hvernig ætli moldin hafi orðið til? Vindur og vatn mala niður grjót og svo brjóta sundrendur niður alls kyns dauðar lífverur. Í mold vaxa líka blóm eins og sóleyjar. Flugurnar sækja í blómin til að ná sér í hunang en frjóvga þau um leið svo að fræ myndast. Mýs eru miklar fræætur en þær verða að passa sig á að refurinn éti þær ekki. Refir eru oft í samkeppni við hrafna um alls kyns fæðu. Hrafnar útbúa sér hreiðurlaupa í klettum. Í kringum laupana vaxa oft fléttur eða mosar sem aftur gefa hald fyrir aðrar plöntur eins og krækiberjalyng. Flestum fuglum þykja ber góð, t.d. þröstum en þeir eru gjarnan í reynitrjám og úða í sig berjum. En þrestir éta líka smádýr eins og lirfur, lirfurnar éta lauf trjánna og breytast í fiðrildi eða flugur sem eiga það til að festast í vefjum köngulónna sem nota tré, eins og birkitré til að festa vefi sína í. ...

    Haldið áfram þangað til allir nemendur eru tengdir en þá fara hlutirnir að gerast!

    Eitt vorið eru krakkar að fikta við eldspýtur og kveikja í sinu. Sinan er dautt gras, þ.e. dauðar lífverur. (Dauðar lífverur toga í spottann. Hverjir finna fyrir því? Nemendur sem finna að togað er í spottann nefna það sem þeir standa fyrir. ) Krakkarnir ná ekki að slökkva sinuna og eldurinn breiðist út. Svart ský skyggir á sólina. Krakkarnir ráða ekki við neitt og eldurinn læsir sig í tré sem þarna vaxa. (Trén toga – hverjir finna fyrir því?) Hverjir finna fyrir því að krakkarnir kveiktu sinuna?

    Á öðrum stað er verið að leggja veg og vegagerðarmenn sprengja upp klett sem var fyrir þeim. (Kletturinn togar – hverjir finna fyrir því?)

    Svona má halda áfram. Athygli er vakin á því að þarna er aðeins um ein tengsl að ræða frá einu fyrirbæri til annars en í raun væri hægt að flækja vefinn enn meira. Allar plönturnar tengjast t.d. bæði sól og mold, og allar lífverurnar ættu í raun að tengjast vatninu sem er öllum lífverum nauðsynlegt.

(© 2003 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga