Útlit

Rjúpan er meðalstór fugl, kvenfuglinn eða hænan vegur um 500 g og karlfuglinn eða karrinn um 550 g. Rjúpan breytir um lit eftir árstímum og er einstök um það meðal fugla að hún skiptir um hluta fjaðurhamsins þrisvar á ári. Í september skrýðist hún hvítum vetrarbúningi, stélið er þó svart. Svartur taumur er milli nefs og auga á karranum en kvenfuglinn er með alhvítt andlit eða grannan svartan hvítyrjóttan taum. Rjúpurnar haldast hvítar fram á vor. Hænan byrjar að fella yfir í brúnan sumarbúning strax í lok apríl og fylgir landinu, þannig að hún verður brún þegar vetrarsnjóinn tekur upp. Karrinn aftur á móti helst hvítur allt fram í lok maí og vetrarbúningurinn er hans brúðarskart. Sumarbúningur rjúpunnar er brúnn. Í júlí fella rjúpurnar flugfjaðrir og stélfjaðrir, þessum stóru fjöðrum er skipt út aðeins einu sinni á ári. Á sama tíma fella þær brúnan sumarbúninginn og skrýðast gráleitum haustbúningi. Bæði kyn eru með rauða kamba ofan við augun. Kambar karrans þrútna og stækka á vorin og eru mjög áberandi um varptímann. Annað einkenni rjúpunnar er að tær hennar eru fiðraðar á veturna og er til skemmtileg þjóðsaga um það af hverju svo er.

Útbreiðsla

Rjúpan er útbreidd um allt land frá fjöru til fjalla. Hún er staðfugl en ferðast innanlands utan varptíma og geta rjúpur þá farið landshorna á milli, sérstaklega á það við um hænurnar.

Lífshættir

Karrinn helgar sér óðal í lok apríl. Hænan kemur tveimur til þremur vikum síðar og sest að hjá einhverjum karranum. Sumir karrar eru paraðir fleiri en einni hænu. Rjúpan er frjósamur fugl, hún verður kynþroska ársgömul og hver hæna verpir að jafnaði um 12 eggjum. Útungunartíminn er um þrjár vikur. Ungarnir yfirgefa hreiðrið um sólarhring eftir klak og fylgja móður sinni 6-8 vikur. Þeir eru bráðgerir og farnir að flögra strax um vikugamlir. Karrinn tekur engan þátt í uppeldi unganna. Rjúpan er jurtaæta en ungarnir éta nokkuð af skordýrum fyrstu vikurnar í lífi sínu. Mikilvæg fæða rjúpunnar er rjúpnalauf (blöð), krækilyng (ber), aðalbláberjalyng (greinaendar, ber), birki (reklar, blaðbrum), grasvíðir (greinaendar) o.fl. tegundir. Margt verður rjúpum að grandi og hún á sér marga óvini. Stærð íslenska rjúpnastofnsins er breytileg á milli ára og stofninn er sagður vera sveiflóttur (sveiflast) og um 10 ár hafa liðið á milli toppa (karratalningar á Kvískerjum). Í hámarksárum er stærð rjúpnastofnsins 2–4 milljónir fugla að hausti en innan við milljón í lágmarksárum. Þessar sveiflur eru náttúruleg fyrirbæri og tengjast ekki skotveiðum okkar manna. Þættir sem skipta máli í sambandi við stofnsveifluna eru t.d. fæða rjúpunnar og rándýr sem herja á hana. Rjúpan er mikill nytjafugl og hafa 120.000 til 170.000 fuglar verið skotnir á ári hverju sl. áratug. Elstu rjúpur verða 6–7 ára gamlar.

Rannsóknir

Á vegum Náttúrufræðistofnunar hafa umfangsmiklar rjúpnarannsóknir verið stundaðar í áratugi. Þessar rannsóknir hafa snúist um að kanna ýmsa þætti í vistfræði og lífsferli rjúpunnar og einnig áhrif skotveiða á afkomu rjúpnastofnsins. Auk þessara rannsókna hefur Náttúrufræðistofnun séð um að skipuleggja vöktun rjúpnastofnsins og sjá sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar og áhugamenn víða að af landinu um framkvæmd vöktunarinnar. Vöktunin snýst um að telja karra á óðulum vor hvert til að fá mynd af stofnbreytingum. Einnig er viðkoman metin síðsumars og aldurshlutföll tekin úr varpstofni, en þessir tveir þættir ásamt talningum gera okkur kleift að meta afföll. Þá hafa léttir sendar sem gefa frá sér radíómerki verið festir á rjúpur til að unnt sé að fylgjast með ferðum þeirra.

Línurit yfir karratalningar

(© 2001 Náttúrufæðistofnun Íslands)

Loka glugga