3. opna - fyrir um 4500–2000 árum

Áin Níl

Menningarskeið í Egyptalandi hinu forna stóð í næstum 3000 ár. Báðum megin Nílardals eru eyðimerkur. Áin Níl var forsenda fastrar búsetu á þessu svæði. Á hverju sumri flæddi áin yfir bakka sína. Áin bar ekki aðeins vatn yfir þurra jörðina heldur leir fullan af næringarefnum. Síðan fjaraði vatnið á brott og skildi eftir sig frjósaman, rakan jarðveg.

Þjóðin við ána

Áin sameinaði fólkið sem bjó við hana. Fólk varð að nota ána saman og vinna við að gera flóðgarða og áveitur. Fólk ræktaði aðallega hveiti og bygg, en líka baunir, lauka, gúrkur, vínber, melónur, fíkjur og döðlur. Egypskir bændur voru líka með húsdýr, nautgripi, kindur, geitur, svín, gæsir, endur og dúfur. Á sumrin var ekki hægt að vinna á ökrunum því að þá lá áin yfir þeim. Í nóvember voru akrarnir plægðir og í þá sáð og á vorin kepptust allir við að ná saman uppskerunni og lagfæra áveituskurði áður en áin flæddi yfir landið á ný. Í fyrstu voru samfélög manna í smáum þorpum en síðar sameinuðust þau.

Fyrsta þjóðríkið?

Fyrir um 5000 árum var myndað í Nílardalnum eitt stórt konungsríki úr tveimur sem þar voru þá fyrir. Stundum er sagt að þarna hafi orðið til elsta ríki heims. Talið er að þó svo að fólk hafi verið fátækt þá hafi það haft nóg að borða og átti frístundir. Hins vegar þurfti það að vinna mjög mikið, ekki aðeins á ökrunum sínum heldur líka fyrir konungana, eða faraóana.

Faraóarnir

Faraóarnir áttu fólkið og gátu ráðskast með það að vild. Fólkið trúði á marga guði og leit líka á faraóana sem guði. Faraóarnir réðu til sín embættismenn sem hjálpuðu þeim að stjórna landinu.

Múmíur og grafhýsi

Egyptar trúðu að þeir lifðu eftir dauðann. Þegar faraóar, drottningar og annað háttsett fólk dó var líkömum þeirra breytt í múmíur. Það var gert til að stöðva að líkin rotnuðu. Innyflin og heilinn voru tekin úr líkinu (heilinn út í gegn um nefið) og sett í sérstakar krukkur. Síðan var líkaminn þurrkaður með því að þekja hann salti. Svo var troðið í hann lérefti og ilmefnum og hann vafinn í þunnt klæði. Loks var andlitsgríma sett á múmíuna og hún lögð í kistu sem oft var mjög mikið skreytt. Kistunum var komið fyrir í grafhýsi og þar var líka sett ýmislegt sem gæti komið sér vel eftir dauðann svo sem matur, drykkur, peningar og alls kyns verðmæti, gull og gersemar. Grafhýsin voru líka skreytt og þar voru skráðir atburðir úr sögu þess sem þar var grafinn með sérstöku myndletri sem Egyptar notuðu.

Píramíðarnir

Píramíðarnir byggðir guðunum og faraóunum til dýrðar. Þeir voru risastórir og grafhýsin voru leyniherbergi inni í þeim. Það var mikil vinna og erfið að byggja píramíðana og enginn skilur alveg hvernig það var gert. Talið er að það hafi tekið a.m.k. 20 ár að byggja hvern þeirra og það voru mörg þúsund manns sem unnu að því. Stærsti píramíðinn er næstum 150 metra hár. Enn eru margir píramíðar í Egyptalandi en góssið sem í þeim var hefur löngu verið fjarlægt aðallega stolið af grafarræningjum á öldum áður.

(© 2006 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga