8. opna - Fyrir 1500-500 árum

Þjóðir í Evrópu

Fyrir 1500 árum, þegar Rómaríki leið undir lok, voru margir þjóðflokkar í Evrópu. Þeir fóru um til að leita sér að heimkynnum. Á næstu 500 árum settist fólk að og stofnaði eigin konungsríki, mörg en smá. Flestir stjórnendur þeirra voru kristnir, þeir hvöttu til lærdóms og listsköpunar en börðust einnig um landið hver við annan.

Lénsskipulag

Fyrir um 1000 árum skiptist fólk í Evrópu í fjóra hópa. Hver hópur hafði sitt hlutverk og stöðu. Þetta er kallað lénsskipulag.

Kóngurinn átti landið, samdi lögin og stjórnaði hernum.

Kóngurinn úthlutaði aðalsmönnum stórum landsvæðum og í staðinn lofuðu aðalsmennirnir að berjast fyrir kónginn og útvega honum riddara í bardögum.

Aðalsmennirnir létu riddara sína hafa land. Á móti þjálfuðu riddararnir sig sem hermenn og börðust fyrir aðalsmennina og kónginn.

Bændur unnu á landinu fyrir kónga, aðalsmenn og riddara.

Þrátt fyrir að allir hóparnir hefðu lofað hver öðrum trúmennsku kom það fyrir að aðalsmenn gerðu uppreisn gegn kóngi sínum og bændur gegn sínum landeigendum. Á 13. öld fóru að verða til nokkurs konar þing eða ráð sem konungurinn varð að ráðfæra sig við áður en hann tók stórar ákvarðanir. Í þeim ráðum gátu verið aðalsmenn og biskupar.

Fólkið

Kóngar, aðalsmenn og hermenn bjuggu í rammgerðum kastölum til að auðvelda sér að verjast andstæðingum sínum. Þeir bjuggu þar með fjölskyldum sínum og höfðu líka mikið af þjónustufólki. Á friðartímum var líf og fjör í köstulunum. Kóngurinn og aðalsmenn fóru til veiða, haldnar voru hátíðir og veislur, sungið, dansað og farið í leiki og íþróttir og fólk vann að ýmiss konar hannyrðum og listsköpun.

Flest fólk bjó í litlum þorpum. Umhverfis þorpin var landbúnaðarland. Bændurnir greiddu landeigandanum fyrir að fá að yrkja landið með peningum, mat eða vinnu. Bændafólk bjó ásamt dýrunum sínum í einföldum húsum. Það borðaði aðallega mjölgrauta, ávexti og grænmeti en hafði ekki efni á að borða kjöt, egg og fisk. Allt fólkið vann landbúnaðarstörf en í flestum þorpum voru líka járnsmiðir og malarar. Fólk borgaði þeim fyrir vinnu sína með mat. Stundum voru haldnir markaðir þar sem fólk skiptist á vörum, kaupmenn komu til að kaupa og selja og fólk skemmti sér.

Kristni og kirkja

Á miðöldum var kirkjan í Evrópu mjög valdamikil. Páfinn í Róm var æðsti maður kirkjunnar en í hverju landi voru einn eða fleiri biskupar. Hættulegt var fyrir fólk að hlýða ekki fyrirmælum kirkjunnar. Slíkt fólk var kallað villutrúarfólk og var ofsótt og drepið stundum með því að brenna það. Víða voru byggðar miklar dómkirkjur. Margar voru mjög stórar og mikið skreyttar. Það gat tekið meira en 100 ár að byggja slíka kirkju. Sumt fólk fór í pílagrímsferðir til Rómar eða til staða sem taldir voru helgir. Með því vildi fólk sýna trú sína og biðjast fyrirgefningar á syndum sínum. Margir aðalsmenn frá Englandi, Frakklandi og Þýskalandi fóru í krossferðir til Jerúsalem. Tilgangur þeirra var að hrekja burt frá borginni það fólk sem þar bjó vegna þess að það var ekki kristið. Á miðöldum byggðust líka mörg klaustur í Evrópu. Þau voru ýmist fyrir munka eða nunnur. Fólk sem gekk í klaustur varð að gefa allt sem það átti og mátti ekki giftast. Í klaustrum varð fólk að fylgja reglum, biðja bænir og vinna ákveðin verk. Þar voru ræktaðar bæði matjurtir og lækningajurtir og í klaustrum gat veikt fólk oft fengið hjálp. Ólíkt öðru fólki á þessum tíma þá kunnu munkar og nunnur að lesa og skrifa. Í klaustrum voru víða handskrifaðar miklar bækur og skreyttar með myndum og mynstrum.

Borgir verða til

Fyrir um 900 árum fóru að verða til borgir víða í Evrópu. Margar þeirra byggðust í kring um kastala. Fólk í borgunum varð að borga landeigandanum leigu en var ekki skyldugt að vinna fyrir hann og vann við ýmis störf. Í borgunum varð til handverksfólk sem saumaði föt og útbjó leirmuni og þar voru kaupmenn, bakarar, slátrarar, bruggarar, veitingamenn, gullsmiðir, prestar og læknar. Sumir handverksmenn og kaupmenn urðu ríkir – ríkari en aðalsmennirnir. Þá heimtuðu þeir líka völd. Farið var að borga með peningum fyrir vinnu og nauðsynjar. Fólk fór að ferðast og þekking og víðsýni jókst. Það fór að gagnrýna bæði kirkjuna og kónginn og lénsskipulagið riðlaðist smám saman og hvarf.

(© 2006 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga