Nútímamaðurinn hefur stærri heila en fyrri gerðir manna og er því talinn vera greindari en þeir voru. Fólk vann saman í fjölskylduhópum og annaðist um alla í fjölskyldunni t.d. þá sem voru veikir eða særðir. Fólk notaði áhöld og eld, safnaði plöntum og veiddi dýr og ferðaðist frá einum stað til annars meðal annars til að finna fæðu. Fólkið hafði tungumál og gat því skipulagt sig og unnið saman í hópum. Það gat búið til skjólföt t.d. úr dýraskinnum og eldurinn hjálpaði þeim til að lifa í kulda ísaldar. Það gat skipst á upplýsingum og vörum. Það hafði hugsanlega e.k. trúarbrögð og trúði því að í veröldinni ríktu verur máttugri þeim sjálfum.

Á ísöld var svo mikið af vatni bundið í jökli að sjávarhæð var lægri en nú er og því meira land upp úr sjó. Því gátu menn arkað um allan heim og á frumstæðum bátum komust þeir alla leið til Ástralíu fyrir um 50 þúsund árum.

Á hverjum stað lærði fólk að bjarga sér við þær aðstæður sem náttúran bauð upp á. Fólk sem bjó í Evrópu, þar sem var mjög kalt á þessum tíma, lærði að veiða vísunda sem þá lifðu þar og nýta allt sem þeir gáfu. Þá, rétt eins og nú, hafði fólk gaman af listum, bjó til hljóðfæri, kannski söng fólk og dansaði og það málaði fallegar myndir á hellaveggi.

Sérstaða fólks, þegar það er borið saman við dýr, er margvísleg. Ekki þó síst sú að menn geta aðlagað umhverfi sitt að sínum þörfum og aðlagað lífshætti sína að náttúrunni á hverjum stað. Dýr eru bundin útbreiðslusvæði sínu. Þau geta aðeins lifað þar sem er næg fæða, þar sem er heppilegt hitastig og efni í afdrep s.s. í hreiður. Fólk getur hins vegar lifað um allan heim vegna þess að það hefur hendur til að móta umhverfi sitt og til ýmissa verka og heila og taugakerfi, talmál og samskipti. Önnur sérstaða manna er líka sú að hópur fólks vinnur markvisst saman og skiptir með sér lífsnauðsynjum jafnt til skyldra sem óskyldra.

(© 2006 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga