5. opna - Fyrir um 3000-2000 árum

Borgríkin

Fyrir um 3000 árum voru á Grikklandi fjölmörg lítil borgríki hvert með sín lög og reglur. Í hverju ríki var þéttbýli, borg, og landbúnaðarland í kring. Mikilvægustu ríkin voru Aþena og Sparta. Hvert borgríki hafði sinn her og þau áttu í stöðugum erjum og stríði.

Grikkir þurftu líka að verjast herjum frá öðrum þjóðum ekki síst Persum sem réðust nokkrum sinnum inn í Grikkland. Borgin Aþena var eyðilögð í innrás Persa árið 480 f.Kr. Eftir það sameinuðust nokkur borgríki undir stjórn Aþenu og borgin varð rík og voldug.

Fyrsta Maraþonið

Árið 490 f.Kr. réðust Persar inn í Grikkland. Grikkir sigruðu Persaher í bænum Maraþon. Hlaupari var fenginn til þess að flytja þessar góðu fréttir til Aþenu en þangað voru 32 kílómetrar. Hann komst þangað og gat sagt tíðindin en dó síðan af áreynslunni.

Vísir að lýðræði

Í Aþenu gátu allir frjálsir karlmenn ráðið nokkru um það hvernig borginni var stjórnað. Þeir hittust á tíu daga fresti, ræddu ný lög og tóku ákvarðanir með því að greiða atkvæði. Þetta var vísir að lýðræði en teldist þó ekki slíkt í nútíma þjóðfélagi því að konur, menn af erlendum uppruna og þrælar fengu ekki að kjósa.

Guðir og gyðjur

Grikkir trúðu á marga guði og gyðjur sem höfðu marga mannlega eiginleika. Þeim til dýrðar voru byggð hof, reistar styttur og haldnar ýmiss konar hátíðir. Seifur var æðstur guðanna en gyðjan Aþena var dóttir hans. Guðir og gyðjur áttu mikinn þátt í daglegu lífi Grikkja.

Börnin

Drengir efnaðra foreldra voru sendir í skóla 7 ára gamlir og lærðu lestur, skrift, stærðfræði, tónlist, ljóð, íþróttir og dans. Stúlkurnar voru heima og lærðu hjá mæðrum sínum en þær voru verkstjórar heima fyrir og stýrðu oft stóru búi og mörgum þrælum.

Ólympíuleikarnir

Íþróttir voru í hávegum hafðar og Grikkir kepptu í íþróttum um allt land. Frægustu íþróttakappleikirnir voru haldnir fjórða hvert ár í Ólympíu. Þeir voru hluti af hátíð sem haldin var til heiðurs Seifi æðsta guði Grikkja. Á Ólympíuleikunum var í fyrstu aðeins keppt í hlaupi en síðar líka langstökki, spjót- og kringlukasti, glímu, hnefaleikum og kerruakstri.

Leikrit

Talið er að Grikkir hafi fyrstir þjóða skrifað og leikið leikrit. Þau voru skrifuð til að gleðja guðina en sum þeirra gleðja fólk í leikhúsum enn þann dag í dag.

Handverk

Grikkir voru miklir handverksmenn. Þeir byggðu stór marmarahof og var þökum þeirra haldið uppi með miklum, útskornum súlum. Einnig bjuggu þeir til mikið af leirmunum. Þeir voru oft skreyttir með myndum sem sýndu daglegt líf fólksins.

Vísindi og heimspeki

Grikkir lögðu mikla áherslu á vísindi og rökfræði. Sókrates og nemandi hans Plató voru miklir hugsuðir sem spurðu sjálfa sig og aðra óteljandi spurninga ekki síst um hegðun fólks og samskipti. Plató stofnaði skóla og einn nemandi hans var Aristóteles. Hann varð síðar kennari við skólann. Plató og Aristóteles skrifuðu margar bækur sem höfðu mikil og langvinn áhrif um alla Evrópu og víðar. Hugmyndir og heimspeki þessara manna er enn lesin og oft vitnað til þeirra. Á þessum tíma settu Grikkir líka fram kenningar t.d. um skipan sólkerfisins og uppgötvuðu stærðfræðireglur sem enn eru í góðu gildi.

Alexander mikli

Árið 431 f.Kr. hófst stríð á milli Aþenu og Spörtu. Önnur borgríki tóku líka þátt og stóð stríðið í næstum 30 ár. Eftir það voru land og þjóð illa farin og konungurinn í Makedóníu, sem er norðan Grikklands, lagði allt landið undir sig. Sonur hans, Alexander, tók við ríkinu þegar hann var 20 ára gamall. Hann var mikill hermaður og frábær stjórnandi. Hann hélt ríðandi á hesti með her sinn austur á bóginn til Persíu. Þegar her Alexanders hafði unnið her persneska konungsins í bardaga hélt hann til Egyptalands þar sem Alexander var fagnað sem guði. Þá hélt hann aftur um Persíu til Afganistan og alla leið til Indlands. Þar mætti hann indverskum prins sem notaði 200 þjálfaða fíla í her sínum. Alexander sigraði hann og vildi síðan halda áfram að skoða heiminn og leggja hann undir sig. Hermenn hans voru hins vegar dauðþreyttir eftir margra ára hermennsku og ferðalög og vildu komast heim. Þá hafði Alexander farið fyrir her sínum meira en 30 þúsund kílómetra leið. Ríki hans var þá langstærsta ríki þess tíma og Alexander fékk viðurnefnið mikli. Alexander mikli byggði víða borgir að grískri fyrirmynd og nefndi margar þeirra eftir sjálfum sér. Þekktust þeirra er Alexandría í Egyptalandi. Alexander hafði verið nemandi Aristótelesar og breiddi út grískar hugmyndir og menningu. En hann virti líka og tileinkaði sér að hluta hugmyndir þeirra þjóða sem hann tók yfir. Það gerði hann ekki síst til þess að halda frið við þær. Alexander snéri heim frá Indlandi en komst ekki alla leið. Á leiðinni fékk hann hitasótt og dó aðeins 33 ára gamall. Eftir dauða hans skiptu hershöfðingjar hans ríkinu á milli sín.

(© 2006 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga