6. opna - Fyrir um 2500-1500 árum

Vísir að lýðræði

Fyrir um 2500 árum var kóngurinn í borginni Róm á Ítalíu rekin út úr borginni og ákveðið að henni yrði stýrt af öldungaráði. Í því voru 300 fulltrúar voldugustu fjölskyldna borgarinnar. Undir stjórn öldungaráðsins náðu Rómverjar völdum á allri Ítalíu.

Barist um Miðjarðarhaf

Karþagóborg réði yfir allri norðurströnd Afríku. Karþagóbúar og Rómverjar börðust um hvorir ættu að ráða í kring um Miðjarðarhaf. Einn hershöfðingi Karþagómanna hét Hannibal. Hann fór með her sinn frá Afríku til Spánar og með í för voru 40 stríðsfílar. Herinn fór norður með ströndinni og allt til Alpafjalla. Hannibal vildi koma Rómverjum á óvart með því að ráðast á þá úr norðri. Ferðin yfir Alpafjöllin var þeim erfið. Aðeins tveir fílanna lifðu hana af og mörg þúsund hermenn dóu líka. Samt sigraði her Hannibals rómverska herinn að þessu sinni. Hannibal varð þó loks að snúa aftur til Afríku og þar tapaði hann úrslitaorrustunni. Rómverjar jöfnuðu Karþagó við jörðu. Loks réðu Rómverjar yfir öllu landi umhverfis Miðjarðarhaf.

Júlíus Sesar og keisaraveldi stofnað

Rómverjar lögðu sífellt meira land undir sig en í Róm var ekki friður. Lengi hafði alþýðufólk verið óánægt með hlutskipti sitt, réttleysi og fátækt. Þó svo alþýðumenn fengju að kjósa réði öldungaráðið öllu. Þetta skapaði ófrið í borginni á milli ríkra og fátækra.

Herforingjar gátu orðið mjög voldugir og ríkir. Einn af þeim var Júlíus Sesar. Hann lagði Gallíu, þar sem nú er Frakkland, undir Rómaveldi og réðist inn í Bretland. Hann fór líka til Egyptalands. Hann og Kleópatra, drottning Egypta, urðu frægt par og eignuðust saman son.

Sesar fór með her sinn til Rómar og tók völdin í sínar hendur. Hann vildi koma á friði og gerði ýmislegt til að bæta hag fátæks fólks í borginni. Eftir 5 ára valdatíma var hann drepinn af nokkrum mönnum í öldungaráðinu sem fannst Sesar orðinn of valdamikill. Þá braust aftur út ófriður. Sigurvegari þá varð frændi Sesars. Hann tók sér nafnið Ágústus og varð fyrsti keisari Rómaveldis. Orðið keisari er dregið af nafni Sesars. Ágústus var keisari í Róm þegar Jesús fæddist í Júdeu sem var lítið hérað í Rómaveldi. (kannski vísa í trúarjátninguna!). Um 400 árum síðar gerði Þeódósíus keisari kristni að opinberri trú Rómaveldis.

Rómaveldið

Rómaveldi hélt áfram að stækka og lagði undir sig lönd og þjóðir. Í um 600 ár réðu Rómverjar nær allri Evrópu, Norður Afríku og Mið-Austurlöndum. Ríkinu var skipt í héruð og yfir hverju þeirra var landstjóri sem sá til þess að fólk borgaði skatta, hlýddi rómverskum lögum og virti rómverska guði. Rómverjar lögðu vegi um ríki sitt og byggðu alls kyns mannvirki sem mörg hver standa enn í dag. Borgir þeirra voru vel skipulagðar og um þær voru lagðar vatnsveitur og skolpleiðslur. Flestir bjuggu í fjölbýlishúsum en auðmenn í stórum einbýlishúsum með görðum og í þeim voru alls kyns þægindi, skraut og íburður. Í borgunum voru líka hof og baðhús ætluð almenningi, búðir og veitingahús.

Rómversk menning

Rómverjar tileinkuðu sér ýmislegt úr grískri menningu. Síðan breiddu þeir út siði sína, lög og venjur um allt ríki sitt. Eins og Grikkir trúðu Rómverjar á marga guði og var Júpíter æðstur þeirra. Rómverjar töluðu latínu og í mörg hundruð ár var latína tungumál menntamanna í Evrópu.

Ríkir Rómverjar áttu marga þræla sem unnu öll verk svo að þeir höfðu nægan tíma til að sinna alls kyns leikjum og íþróttum. Þeir skemmtu sér við að horfa á keppni í lífshættulegum kappakstri á litlum hestvögnum og fóru í hringleikahús til að horfa á þræla skylmast upp á líf og dauða. Þúsundir skylmingaþræla voru drepnir í þessum ofbeldisfullu íþróttum. Stærsta hringleikahúsið var reist í Róm. Það heitir Kólosseum, tók um 50 þúsund áhorfendur í sæti og stendur enn að hluta til þótt það sé að verða 2000 ára gamalt. Rómverjar sömdu líka og léku leikrit. Í fyrstu voru þau alvarleg eins og grísku leikritin. Svo var farið að leika gamanleikrit þar sem var bæði tónlist og dans.

Fall Rómaveldis

Árið 117 e.Kr var Rómaveldið stærst. Upp úr því fóru aðrar þjóðir að setjast að innan veldisins til dæmis Germanar sem voru upprunnir í Norður-Evrópu. Um tíma var Rómaveldi skipt í tvennt, austur og vestur hluta. Konstantín keisari sameinaði það aftur á 4. öld og flutti höfuðborg ríkisins frá Róm til borgar við Svartahaf sem hann nefndi eftir sér, Konstantínópel. Sú borg heitir nú Istanbúl. Í kringum árið 400 réðust hópar Asíubúa, sem eru kallaðir Húnar, inn í Evrópu og flæmdu Germani af landi sínu inn í Rómaveldi. Aftur skiptist ríkið í tvo hluta, austur og vestur og nú til frambúðar. Á 5. öld e. Kr. náðu Germanar völdum í vesturhlutanum. Austurhlutinn með höfuðborginni Konstantínópel hélt velli í þúsund ár í viðbót.

(© 2006 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga