Skýringar með vitnisburðarskírteini


Staðlað útlit vitnisburðarskírteinis

Einn liður skírteinis er staðlað útlit þess. Við varðveislu skírteinisins eru geymdar þær upplýsingar sem innihaldslýsing þess skilgreinir. Vörsluaðilar skulu birta notendum innihald rafræna skírteinisins með stöðluðum hætti þegar þeir leita eftir því. Menntamálastofnun leggur fram staðlað útlit skírteinis.

Varðveisla vitnisburðarskírteinis

Skóli skal varðveita innihald skírteinis. Um vörslu þess gilda lög um persónuvernd nr. 77/2000 og lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014. Skóli getur gert samning við vörsluaðila sem fylgir reglum skírteinis um að sinna þessu hlutverki. Skóli, eða vörsluaðili hans, skal afhenda innihald skírteinis þegar opinberir aðilar sem til þess hafa heimild, kalla eftir því.

Langtímavarðveisla

Langtímavarðveisla skírteinis skal vera í námsferilsgrunni sem Menntamálastofnun starfrækir.

Rafrænn flutningur vitnisburðarskírteinis frá vörsluaðila til úrvinnsluaðila

Úrvinnsluaðili þarf að geta tekið rafrænt við skírteininu og gögnum þess frá vörsluaðila til frekari úrvinnslu, t.d. við innritun nemenda í framhaldsskóla. Vörsluaðili og úrvinnsluaðili komast að samkomulagi um á hvaða formi vitnisburður skírteinis skuli fluttur rafrænt á milli aðila, t.d. csv, HTML5 eða JSON. Tryggja þarf að innihald skírteinis birtist nemanda á því staðlaða formi sem Menntamálastofnun leggur fram.

Um hæfnieinkunn

Hæfnieinkunn gefur aðra sýn á stöðu nemenda en aðrar einkunnir sem notaðar eru í tengslum við samræmd könnunarpróf. Hæfnieinkunn telst til flokks einkunna sem endurspeglar að hvaða marki nemandi hefur náð valdi á ákveðinni færni eða hæfni. Þessi flokkur einkunna er viðmiðsbundinn en annar meginflokkur einkunna er röðunarbundinn. Sá flokkur endurspeglar röðun eða innbyrðis afstöðu nemenda. Raðeinkunnir, normaldreifðar einkunnir, framfaratölur og samræmd einkunn tilheyra þessum flokki einkunna.

Einkunnir eins og hæfnieinkunn, viðmiðsbundnar einkunnir, notast alla jafna við mun færri þrep en röðunarbundnar einkunnir. Algengast er að notaðir séu tveir til fjórir flokkar eða einkunnir. Þessir flokkar byggja á skilgreiningum eða lýsingum á færni sem nemandinn hefur á valdi sínu, hvað hann kann og getur. Í tilviki hæfnieinkunna eru það matsviðmið aðalnámskrár sem liggja til grundvallar þrepum hæfnieinkunna, þar eru skilgreind fjögur þrep. Yfirleitt eru notuð lýsandi eða gildishlaðin heiti á viðmiðsbundna einkunnastiga, t.d. „staðið – fallið“, eða „góð færni – grunnfærni – nær ekki grunnfærni“.

Við gerð aðalnámskrár var valin sú leið að skýra flokka hlutlausu heiti, A – B – C – D. Framvegis verða einnig gefnar sjálfstæðar einkunnirnar C+ og B+ sem notaðar verða fyrir nemendur á mörkum C og B og á mörkum B og A. Ekki verða skilgreind sjálfstæð matsviðmið að baki þeim.

Eitt einkenni viðmiðsbundinna einkunna, eins og hæfnieinkunna, er að hátt hlutfall nemenda fær ákveðna einkunn. Sá flokkur endurspeglar grunn eða grundvöll fyrir færni á viðkomandi sviði fyrir tiltekinn aldur. Þessi einkunn sýnir þá að nemandi hafi náð ákveðnum grunni sem er talinn nauðsynlegur fyrir virka þátttöku einstaklinga í samfélaginu, grundvöllur til frekara náms. Því er algengt að þessum flokki séu gefin nöfn sem endurspegla að um sé að ræða grunnfærni. Í tilviki hæfnieinkunna er þetta matsviðmið B og hæfnieinkunn B. Um 50% nemenda hafa fengið þessa einkunn á samræmdum könnunarprófum í 10. bekk. Þetta hlutfall er ekki skilgreint sem eiginleiki kvarðans heldur fundið með aðferð sem byggir á greiningu á innihaldi prófanna. Hærri og lægri einkunnir, en sú sem sýnir grunninn á færnisviðinu, endurspegla færni sem ekki nær þeim grunni eða færni umfram grunninn.

Lagagrunnur

Menntamálastofnun byggir fyrirmæli um staðlað form vitnisburðar við lok grunnskóla á 27. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008, aðalnámskrá grunnskóla, reglugerð um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín nr. 897/2009, með áorðnum breytingum 657/2011, 11. gr. reglugerðar um stuðning við nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010 með áorðnum breytingum 148/2015, lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Einnig bréf mennta- og menningarmálaráðuneytis 24. október 2014: Breytingar á aðalnámskrá grunnskóla og stuðningur við innleiðingu námskrár. Tilv.: MMRI4050209/6.l2.2., bréf 24. september 2015: Vitnisburður nemenda við lok grunnskóla. Tilv.: MMR15090231/8.6.0-, bréf 29. júní 2015: Talnakvarði að baki hæfnieinkunnum. Tilv.: MMR15030207/6.12.2 og bréf 7. febrúar 2017: Innleiðing á nýjum námsmatskvarða við lok grunnskóla.Tilv: MMR17020058/8.6.0-.