Þú getur lesið söguna og líka hlustað
á hana um leið og þú lest.


Ýttu hér til að hlusta.

Ýttu hér til að byrja aftur.

Þegar þú ert búin(n) að lesa eða hlusta skaltu leysa verkefnin efst.

Raðaðu stöfunum í rétt orð.

Svaraðu spurningu.

Smelltu hér þegar þú ert búin(n).

Smelltu hér ef að þú vilt hjálp.

Gagga og Ari
Gagga, Ari og gotterí
Ari og Gagga eru mikið saman.
Þau eru systkin og góðir vinir.
Ari segir oft að þau séu bestu vinir í heimi.
Gagga brosir þegar hann segir það.
Henni þykir Ari sniðugur.

Gagga og Ari eru mjög sólgin í gotterí.
Gagga segir oft að gotterí sé gott.

Ari hlær þegar
hún segir það.
Honum þykir
Gagga fyndin.

Gotterí er eina
áhugamál þeirra.

Þau tala um gotterí daginn út og inn.
Þau dreymir gotterí á næturnar.

Þau dreymir allt góða gottið sem þau töluðu
um allan daginn. Alls konar gotterí
eins og popp, kók og ís.
Mamma og pabbi
Mömmu og pabba finnst ekki gott að börnin
hugsi bara um gotterí og vilja fá þau
til að hætta því.

Dag einn biðja þau börnin að tala
við sig. Gagga og Ari hlýða því.

- Gotterí skemmir tennur,
segir mamma.

- Gotterí er óhollt fyrir
líkamann, segir pabbi.

- En gotterí er svo gott, segir Gagga.

Mömmu finnst að börnin geti fundið margt betra
en gotterí í þessum heimi.

- Hvað í heiminum er gott
annað en gotterí?
spyr Gagga.
Mömmu þykir gott að hjálpa
öðru fólki. Pabba þykir gott
að horfa á himininn.

Þau horfa áköf á börnin
og telja upp alls konar
góða hluti.

- Það er gott að leika úti
í góðu veðri.

- Það er gott að byggja snjóhús
í snjónum.

- Það er gott að synda og hjóla.

- Það er gott að skoða falleg dýr
eins og fugla, kýr og fiðrildi.

- Það er gott að klappa mjúkum
dýrum eins og hundum og köttum.

- Það er svo margt annað gott en
gotterí, segja mamma og pabbi.
Gagga og Ari eru þver
Gagga og Ari velta fyrir sér hvað í þessum
heimi geti verið betra en gotterí.
Þau eru ekki á sama máli og mamma
og pabbi. Þvert á móti eru þau þver.

Þau vilja ekki hætta að hugsa
um gotterí því þeim þykir svo
gott að hugsa um gotterí.

Mamma og pabbi gefast
ekki upp. Þau ætla að
finna betra áhugamál
handa Göggu og Ara.

Pabba finnst að börnin
eigi að læra að vinna
í garðinum.

Hann stingur upp á að þau
rækti grænmeti eins og
salat og gulrætur.
Göggu og Ara líst ekki á blikuna. Þau
vilja ekki vinna og þau vilja ekki rækta
grænmeti. Þau eru svo fýld að mamma
og pabbi hlæja að þeim.
Gagga og Ari vilja fá dýr
Pabbi lítur hugsandi á börnin
og segir að þau þurfi að fá dýr.

- Hvers vegna? spyr mamma.

Börnin hugsa ekki um gotterí
á meðan þau sinna dýri,
svarar pabbi.

Gagga og Ari þurfa
ekki að heyra
meira. Þau vilja
ólm fá dýr. Þau
verða svo spennt
að allt gotterí
í heimi gleymist.

- Hvernig dýr?
Hvaða dýr?
Hvenær fáum við dýr?
hrópa þau.
- Mig langar í hest,
segir Ari.

Mig langar í gíraffa,
segir Gagga.

- Og fíl, segir Ari.

- Og apa, segir Gagga.

- Bara ekki úlf,
hann myndi éta okkur, segir Ari.

- Ekki ljón,
það myndi líka
éta okkur, segir Gagga.

- Við erum gotterí
fyrir úlfa, segir Ari.



- Mesta sælgæti fyrir ljón,
segir Gagga.
Börnin fá kanínu
Mamma og pabbi vilja alls ekki gefa börnunum
fíl, gíraffa eða apa. Pabbi spyr hvort þau vilji fá
kanínu. Gagga lítur á Ara og Ari lítur á Göggu.
Kanína hljómar vel að þeirra mati.

- Sælgæti er sætt
og kanína er sæt, segir
Gagga.

- Kanína er sætari en
sælgæti, segir Ari og
hlær.

Mamma og pabbi
brosa. Þeim líst vel á
að Gagga og Ari fái
sæta kanínu.

Nokkrum dögum síðar
kemur pabbi heim með
kanínu.

Börnin ráða sér ekki fyrir kæti. Þau klappa
kanínunni og fá bæði að halda á henni.
Pabbi segir að kanínan sé karl. Börnin velta
fyrir sér hvað hann eigi að heita. Göggu finnst
að hann eigi að heita Vinur. Ara finnst að hann
eigi að heita Dúlli.

- Hann er svo vinalegur, segir Gagga.

- Hann er svo dúllulegur, segir Ari.

Eftir stutt þref
hlýtur kanínan
nafnið Vinur Dúlli.

Pabba og mömmu
líst vel á nafnið.
Mamma segir að
það sé bæði vinalegt
og dúllulegt.
Pabbi smíðar kanínuhús
Gagga og Ari passa nýja vininn með stóru
eyrun á meðan pabbi smíðar lítið hús
handa honum.

Vinur Dúlli nartar í gulrót og er alsæll.
Hann liggur á milli barnanna og lygnir
aftur augunum.

Allt um kring vaxa fíflar sem eru hærri en
Vinur Dúlli. Hann nartar í fíflana og grettir
sig því þeir eru beiskir. Síðan sofnar hann
í ilmandi grasinu.

Loks lýkur pabbi við að smíða
litla húsið. Þetta er ljómandi
fallegt hús.

Vinur Dúlli vaknar
þegar Gagga tekur
hann í fangið og setur
hann inn í húsið.
Hann skoðar hvern
krók og kima
og þefar spenntur.
Inni í húsinu er búr með sagi
á botninum. Í búrinu er líka
korn í rauðri skál og vatn
í blárri skál.

Vinur Dúlli smakkar
á matnum og lepur
vatnið. Hann er glaður
í nýja húsinu.
Börnin sofna sæl
Gagga og Ari eru kát. Þau eru svo ánægð
með kanínuna sína.

- Nú er Vinur vinalegi áhugamál okkar,
segir Gagga.

- Nú er Dúlli dúllulegi áhugamál okkar,
segir Ari.

Pabbi hlær og klappar kanínunni. Síðan segir
hann að Vinur Dúlli þurfi að hvíla sig og
börnin þurfi að borða kvöldmat.

Börnin hlýða pabba og skilja kanínuna eftir
í nýja húsinu. Þau fara inn í húsið sitt
með pabba.

Mamma og pabbi elda fisk og búa til salat
handa börnunum. Þau borða matinn með
bestu lyst. Það er gott að borða hollan mat,
eins og kanínur gera.

Eftir matinn fara Gagga og Ari að sofa.
Þau sofna södd og sæl í rúmum sínum.
Þau dreymir ekkert gotterí. Þau dreymir bara
kanínur að leika sér. Vinur Dúlli fer líka að
sofa. Hann sofnar saddur og sæll í litla húsinu
sínu. Hann dreymir kál og kanínur.
Börnin nenna ekki að borða
Daginn eftir vakna Gagga og Ari snemma.
Sólin skín og þau hlaupa út til að leika
við nýja vininn sinn.

Vinur Dúlli hoppar kátur
þegar þau gefa honum
gulrót. Gagga og Ari
brosa og fá sér líka
gulrætur.

Vinur Dúlli borðar
gulrótina sína
hraðar en börnin
og þau hlæja.
Á svona morgni
er gaman að lifa.

Börnin hugsa
ekkert um gotterí því
það er svo gaman að
leika við nýja vininn.
Vinur Dúlli er mikið krútt og feldurinn hans er
mjúkur. Börnin gæla við hann og gefa honum
meira að borða.

Tíminn líður fljótt og börnin gleyma sér alveg
með nýja vininum í góða veðrinu.

Í hádeginu koma mamma og
pabbi. Þau spyrja hvort
börnin vilji fá brauð
og skyr. Gagga
og Ari afþakka matinn.

Það er svo gaman
að leika að þau
nenna ekki að
borða neitt
í hádeginu.

Þeim líður eins og
þau verði aldrei
aftur svöng.
Börnin langar í gotterí
Vinur Dúlli hoppar um garðinn. Hann nagar
gamlan skó og bítur gras. Hann gerir alls konar
sniðuga hluti. Á endanum verður hann þó
syfjaður. Hann lygnir aftur augunum og sofnar.

Gagga og Ari velta fyrir sér hvað þau eigi
að gera á meðan Vinur Dúlli sefur.

Brátt segist Ari vera svangur.

- Ég er líka sársvöng, stynur Gagga
og nuddar magann.

Börnin eru svo svöng að þau byrja að hugsa
um gotterí. Þau gleyma alveg að þau ætluðu
að hætta því.
- Mig langar í gotterí, segir Ari og horfir
spenntur á Göggu.

- Mig líka, segir Gagga áköf.

- Gotterí er svo gott, segir Ari.

- Gotterí er best af öllu, segir Gagga.

Á sömu stundu man Ari að hann hefur safnað
krónum í krukku. Hann stingur upp á að þau
kaupi gotterí fyrir þær. Gagga kinkar kolli og
hoppar af gleði.

- Við verðum að gæta okkar svo mamma og
pabbi taki ekki eftir því, segir Ari kátur.
Gagga kaupir ekki gotterí
Um stund gleyma börnin öllu nema gotteríi.
Þau hugsa bara um ís, kók, popp og súkkulaði.

Þau iða af æsingi. Gagga kveður samt nýja
vininn þeirra með kossi. Hún horfir blíð
á hann og klappar honum.

Vinur Dúlli vaknar
og opnar augun.
Hann horfir stórum
og svörtum augum
á Göggu.

Hann er svo fallegur
og góður að Gagga
verður allt í einu mjög
þakklát. Hún hitnar
öll innan í sér
af þakklæti.

Gagga er þakklát mömmu
og pabba fyrir að hafa gefið
þeim kanínu. Hún er líka
þakklát af því að þau
eru svo góð.

Um leið rennur upp fyrir
Göggu að þau Ari
eru að gera dálítið
rangt. Hún áttar sig
í tæka tíð og hristir
höfuðið.

- Hvað er að? spyr Ari.

- Við skulum ekki kaupa
gotterí, svarar Gagga.

Ari er hissa
Ari gapir svo mikið að Gagga gæti stungið
heilu epli upp í munninn á honum. Síðan spyr
hann hvers vegna hún vilji ekki kaupa gotterí.

- Það er ekki rétt, svarar Gagga.

Ari mænir enn þá hissa á hana og á bágt
með að skilja hvað hún meinar. Gagga
þarf ekki að segja honum meira.
- Mamma og pabbi eru góð að gefa okkur
kanínu en þau eiga ekki að þurfa að gera það
til þess að við hættum að hugsa um gotterí,
segir hún hugsandi.

- Verða þau leið ef við kaupum gotterí?
spyr Ari og klórar sér í hausnum.

- Já, en þau verða mjög glöð ef við pössum
sjálf að borða ekki gotterí, svarar Gagga.

- Ég vil ekki að þau verði leið, segir Ari.

- Þá skulum við bara gæta okkar sjálf og borða
hollan mat, segir Gagga sæl og roggin.

- Það gerir gamla fólkið eins og mamma
og pabbi, segir Ari og ljómar upp.
Honum þykir systir sín svo gáfuð og góð
að hann kyssir hana á kinnina.

Börnin fara inn og borða sig södd af brauði
og skyri. Þau borða mikið og njóta hvers bita.
Ekki meira gotterí
Börnin hætta að hugsa bara um gotterí og hugsa
frekar um kanínuna. Þau fá gotterí um helgar.
Það er betra en að hugsa um það alla daga.

Þau eignast ný áhugamál eins og að lesa bækur
og hjóla um bæinn. Best er þó að börnin fá líka
kanínukonu sem þau nefna frú Vinkonu Dúllu.

Mamma og pabbi vita að börnin ákváðu sjálf að
hugsa ekki um gotterí. Þau eru montin af þeim
og af því hvað börnin eru góð við dýr.

Gagga og Ari eru svo góð við herra Vin Dúlla,
frú Vinkonu Dúllu og dúllulegu ungana þeirra.
x Ekki búið að velja orð.
x
x Veldu eitt orð.