Í gamla daga skildi fólk ekki af hverju koma jarðskjálftar svo að það bjó til alls kyns sögur til að útskýra þá.

Fólk á Íslandi og í öðrum norrænum löndum trúði á marga guði eða goð. Loki var einn goðanna en hann var þó af ætt jötna. Loki var ódæll og stríðinn og hin goðin þurftu oft að atyrða hann. Þegar Loki kom því til leiðar að Baldur, sem var talinn bestur goðanna, var drepinn þá þótti hinum goðunum nóg komið. Þeir tóku Loka og bundu hann við steina inni í helli. Fyrir ofan hann settu þeir eiturorm þannig að eitrið úr orminum lak á andlit Loka. Kona Loka hét Sigyn. Hún stóð hjá Loka með stóra skál og lét eiturdropana detta í hana. Þegar skálin varð full varð Sigyn að fara og hella úr skálinni. Þá draup eitrið úr orminum í andlit Loka og hann kipptist svo mikið við að Jörðin skalf. Það kölluðu menn jarðskjálfta.

Fólk í Vestur Afríku gerði ráð fyrir því að jörðin væri flöt eins og diskur. Öðrum megin hvíldi jörðin á háu fjalli en mikill risi hélt undir hana hinum megin. Kona risans hélt himninum uppi. Þegar risinn faðmaði konuna sína hristist jörðin.

Margar þjóðir héldu að jörðinni væri haldið uppi af einhverjum dýrum. Kínversk þjóðtrú gerði ráð fyrir því að jörðin hvíldi á herðakambi stórs uxa. Þegar uxinn færði jörðina af annarri öxlina á hina þá varð jarðskjálfti.

Í Kaliforníu eru jarðskjálftar mjög algengir. Frumbyggjar (Indjánar) þar trúðu því að jörðin hvíldi á baki sex skjaldbakna. Þegar þær rifust syntu þær hver frá annarri og þá varð jarðskjálfti.

Japanir héldu að eyjarnar þeirra hvíldu á baki stórrar geddu sem bjó í leðjunni á sjávarbotni og þegar leikur var í geddunni hristust eyjarnar.

Í Mongólíu var því trúað að jörðin hvíldi á stórum froski sem auðvitað gat ekki hreyft sig öðru vísi en að valda jarðskjálfta.

Og á Indlandi gerðu menn ráð fyrir því að fjórir fílar héldu uppi jörðinni. Fílarnir stóðu á baki skjaldböku sem aftur stóð á baki gleraugnaslöngu. Ekkert dýranna gat hreyft sig án þess að jörðin skylfi.

Loka glugga