Bænir

Íslam / Siðir / Bænir

Sækja pdf-skjal

 

Samkvæmt stoðunum fimm eiga múslimar að fara með bænir fimm sinnum á dag. Um það leyti sem sólin kemur upp fara þeir með fyrstu bænina, aðra í hádeginu, þá þriðju um miðjan daginn, fjórðu við sólsetur og að lokum þá fimmtu um það bil klukkustund eftir sólsetur. Bænirnar eru á arabísku og eru eins alls staðar.

Alls staðar í heiminum koma fullorðnir múslimar saman í moskum í hádeginu á föstudögum til að biðjast fyrir. Bænahaldið tekur um 40 mínútur. Karlar eru skyldugir til að mæta til föstudagsbæna en konur hafa val um hvort þær mæta eða ekki.

Áður en bænahald í mosku hefst er kallað til bæna. Mismunandi er hvernig því er háttað eftir stöðum. Sums staðar er kallað úr turni sem stendur rétt við moskuna, annars staðar er notað kallkerfi eða kallað er til bæna innan moskunnar.

Múslimar þurfa ekki sérstakan aðila til að stjórna bænahaldi. Hvaða múslimi sem er getur sinnt skyldum sem tengjast daglegu lífi þeirra. Múslimar leita þó til imam ef þeir vilja kafa dýpra í fræðimennsku trúarinnar. Imam merkir leiðtogi en hefur þó ólíka merkingu meðal múslima. Flestir múslimar líta þó á imam sem viðkenndan trúarleiðtoga eða kennara í íslam.

Hér á Íslandi hittast múslimar í hádeginu á föstudögum í samkomuhúsi sínu. Þeir hafa mætt miklum skilningi hjá vinnuveitendum sínum og eru það um þrjátíu til fjörtíu manns sem mæta á hverjum föstudegi.

Hér fyrir neðan er stafræn tafla sem sýnir bæði hvaða dagur er í dag samkvæmt íslömsku tímatali og klukkan hvað bænirnar eiga að fara fram miðað við Ísland. Taflan uppfærist sjálfkrafa og á því alltaf að sýna daginn í dag.