Fyrstu búddaráðstefnurnar

Búddadómur / Saga búddadóms / Fyrstu Búddaráðstefnurnar

Sækja pdf-skjal

 

Eftir að Búdda dó tók fylgismaður hans Mahakasyapa við sem leiðtogi Sangha. Hann óttaðist upplausnarástand innan klausturreglunnar þannig að eitt af hans fyrstu verkum var að fyrirskipa munkunum að safna saman kenningum Búdda. Fyrsta búddaráðstefnan var haldin í borginni Raghgir þar sem bestu fylgismenn Búdda voru beðnir um að þylja upp kenningar hans eftir minni. Ananda sem var frændi Búdda, náinn vinur hans og fylgismaður í meira en 30 ár, var fyrstur til að segja frá kenningum hans. Samkvæmt sögunni sagði hann ekki bara frá öllu því sem hann hafði heyrt heldur einnig hvar og hvenær það hafði gerst. Hinir munkarnir voru að því loknu beðnir að staðfesta frásögn Ananda og í framhaldi af því voru reglur og kennisetningar trúarkerfisins samþykktar. Kenningum Búdda var svo skipt í þrjá flokka eða körfur: Karfa þekkingarinnar (Vinaya pitaka), karfa kenningarinnar (Sutta pitaka), karfa fræðihugtakana (Abhidhamma pitaka). Það má lesa meira um kennisetningar Búdda, körfurnar þrjár og önnur helgirit búddadóms í kaflanum Kennisetningar og reglur.

Á næstu áratugum breiddist búddadómur hratt út. Munkarnir ferðuðust um sveitir og borgir Indlands og breiddu út kenningar Búdda á friðsaman hátt.

Tæplega hundrað árum eftir dauða Búdda fóru búddamunkarnir að deila um kenningar hans og til að reyna að leysa þann ágreining var haldin önnur ráðstefna. Þó svo að lítið sé vitað um hvað gerðist á þeirri ráðstefnu þá endaði hún með því að búddareglan klofnaði í tvennt og stór hópur munka yfirgaf regluna og stofnaði nýja. Þeir sem sátu eftir kölluðu sig öldungana (Thera) og þeirra túlkun á kenningunum var íhaldsamari en túlkun hins hópsins, stóra safnaðarins (Mahasanghika), sem var með frjálslegri túlkun á kenningum Búdda. Báðir hóparnir töldu hins vegar sína túlkun vera þá sem væri nær raunverulegum boðskap Búdda. Þessir hópar þróuðust síðar í tvær stærstu greinar búddadóms Theravada (litli vagninn) og Mahayana (stóri vagninn). Það má lesa meira um þessar stefnur í kaflanum: Tvær meginstefnur.

200 árum eftir dauða Búdda hafði búddadómur svo skipst í 18 greinar.