Sangha - klausturreglan

Búddadómur / Saga búddadóms / Sangha - klaustursreglan

Sækja pdf-skjal

 

Í upphafi var klaustursamfélag búddadóms hópur förufólks, af báðum kynjum, sem fylgdi Búdda á ferðum hans um Norður-Indland. Á regntímanum á þessum slóðum verða vegir hins vegar ófærir sem leiddi til þess að hópurinn fór að halda kyrru fyrir á þessu tímabili. Það varð til þess að stofnuð voru klaustur sem smátt og smátt urðu undirstöðustofnanir búddatrúarsamfélagsins: Sangha. Klaustrin nutu fljótt verndar og stuðnings konungsveldisins og annarra ráðamanna og urðu um leið miðstöðvar fræðaiðkunar, bæði heimspekilegrar og veraldlegrar.

Munkar og nunnur Sangha reyna að fylgja fordæmi Búdda með því að flytja frá fjölskyldum sínum til að búa í klaustrum  og lifa eftir boðskap Búdda. Þau lifa mjög fábrotnu lífi með það í huga að þroska sinn innri mann og lifa einföldu en góðu lífi. Þau eiga aðeins nokkra hluti: kuflinn sem þau ganga í, betliskál og rakhníf sem þau nota til að raka hárið af höfði sér, þar sem þau eiga ekki að hugsa um ytri fegurð heldur að einbeita sér að því að þroska með sér sína innri fegurð.

Sangha samfélagið er háð venjulegu fólki búddaátrúnaðar. Það sér um að halda samfélaginu gangandi með því að færa klaustrunum fórnir. Í Suðaustur-Asíu fara munkarnir í betligöngu á hverjum morgni og almenningur gefur þeim mat fyrir daginn. Þannig er almenningur að styðja við bakið á þeim á leið þeirra til að öðlast nirvana en um leið safnar fólk verðleikum sem mun veita því betri endurfæðingu í næsta lífi.