Búddadómur á Íslandi

Búddadómur / Saga búddadóms / Búddadómur á Íslandi

Sækja pdf-skjal

 

Á Íslandi eru starfandi nokkur búddatrúfélög en talið er að samtals séu um 1000 búddistar hér á landi. Stærst þeirra er Búddistafélag Íslands með rúmlega 600 meðlimi. Flestir eru þeir innflytjendur frá Tælandi, Víetnam, Sri Lanka og Filippseyjum og fjölskyldur þeirra. Búddistafélag Íslands var stofnað árið 1995 með það í huga að varðveita menningu og siði theravadastefnunnar. Þeir starfrækja eina búddamusterið á Íslandi sem staðsett í Kópavogi og þar hafa munkar félagsins aðsetur.

Hefð er fyrir því að búddistar komi saman í musteri sínu fjórum sinnum í hverjum tunglmánuði, þegar það er fullt tungl, ekkert tungl, hálft rísandi og hálft hnígandi. Hér á Íslandi eru þessar samkomur hinsvegar alltaf á laugardögum frá kl. 9:00 – 14:00. Venjan er sú að konur mæta með heimatilbúinn mat og færa munkunum. Munkarnir kyrja bænir og ritningarvers sem allir taka þátt í. Að því loknu fá munkarnir sér að borða en fólkið spjallar saman. Þegar munkarnir hafa lokið máltíðinni má fólkið svo borða en það er talinn mikill heiður að borða á eftir munkunum. 

Af öðrum búddistafélögum á Íslandi má nefna Karuna-hreyfinguna og Zen-búddista á Íslandi – Nátthaga sem fylgja kenningum mahayanstefnunnar en einnig Soka Gakkai á Íslandi sem byggir á aldagömlum japönskum sið.

 

 

Myndir frá Búddaklaustrinu í Kópavogi

 

Myndir af Búddastúpunni í Kópavogi