Boðorð og siðaboðskapur

Gyðingdómur / Kennisetningar og reglur / Boðorð og siðaboðskapur

Sækja pdf-skjal

 

Ester Trúarlíf gyðinga er fólgið í því að fræðast um lögmálið, Tóra, og biðjast fyrir í sýnagógunni.  Allt frá því að seinna musterið til forna var eyðilagt og til dagsins í dag hafa Tóra og aðrir textar gyðingdómsins verið þungamiðja trúarlífs þeirra. Í Tóra, Talmúd og öðrum ritum gyðingdómsins er að finna mikilvægar heimildir um sögu hans og hin guðdómlegu boðorð.

Í lögmálinu, Tóra, er bæði að finna trúar- og siðaboðskap gyðinga. Sagt er að  Guð hafi birst Móse á Sínaí-fjalli og opinberaði honum boðorðin tíu, sem voru skrifleg, en auk þess hafi Guð opinberað Móse fleiri boðorð sem varðveittust munnlega. Þau voru skráð niður seinna, ásamt fleiru, og mynda ritið Talmúd sem sumir gyðingar telja jafn helgan texta og þann sem er að finna í Biblíunni. Hægt er að lesa meira um sáttmálann á Sínaífjalli í kaflanum: Forsaga gyðingdóms > Sáttmálinn á Sínaífjalli.

Auk boðorðanna tíu fara gyðingar eftir 613 boðorðum (mitzvot) en þau er að finna í Halakhah.  Ekki eru allir gyðingar á sama máli um nákvæmni þessara 613 boðorða en hins vegar eru þeir sammála um að boðorðin séu 613. Boðorðin er leiðarljós þeirra sem fylgja Guði. Í þeim felast leiðbeiningar um hvernig beri að hegða sér í samfélagi við Guð og samferðamenn. Hægt er að lesa meira um Tóra, Halakha og önnur helgirit gyðinga í kaflanum:  Helgirit.

Kærleiksboðorðin eru einnig mikilvæg í siðaboðskap gyðinga, en þau eru tvö.

Fyrra kærleiksboðorðið: „Þú skalt elska Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum“ (Biblían, 1981, 5M 6.5).

Seinna kærleiksboðorðið: „Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er drottinn“ (Biblían, 1981, 3M 19.18).