Jerúsalem

Gyðingdómur / Tákn og helgir dómar / Jerúsalem

Sækja pdf-skjal

 

Ester Jerúsalem hefur mikið gildi í augum gyðinga. Hún er helgasta borg þeirra enda stóð musterið í borginni, mesti helgidómur Ísraelsmanna til forna. Jerúsalem hefur einnig trúarlegt gildi fyrir þá sem aðhyllast kristni og íslam.

Davíð konungur Ísraelsmanna hertók borgina, gerði hana að höfuðborg ríkisins og lét flytja sáttmálsörkina þangað. Jerúsalem er því tilbeiðslustaður Ísraelsmanna og þeir sem ekki eru staddir í Jerúsalem þegar þeir biðjast fyrir snúa sér í átt að borginni. Eftir að Davíð lést tók Salómon konungur við stjórn og lét reisa mikið musteri utan um sáttmálsörkina. Musterið var byggt á hæð sem í dag nefnist Musterishæð. Hægt er að lesa meira um þetta tímabil í sögu Ísraelsmanna í kaflanum: Forsaga gyðingdóms > Ísraelska konungsríkið.

En eftir að Salómon lést var ríkinu skipt í tvennt og verulega fór að halla á Ísraelsmenn á þessu svæði. Mikið var um átök í Jerúsalem þar sem ýmist var verið að brjóta hana niður eða byggja hana upp. Árið 597 f. Kr. náðu Babýloníumenn yfirráðum yfir borginni sem endaði með því að 587 f. Kr. voru Ísraelsmenn gerðir útlægir úr ríkinu og musterið eyðilagt. Undir lok aldarinnar var Babýlon komin undir stjórn Persa og árið 538 f. Kr. fengu Ísraelsmenn að snúa aftur til Jerúsalem. Mikil uppbygging hófst og hið forna musteri var endurbyggt. 198 f. Kr réði Antíokkus IV Sýrlandskonungur yfir Jerúsalem en vanhelgaði musteri Ísraelsmanna og eyðilagði mannvirki. Ísraelsmönnum tókst undir forystu Júdasar Makkabeus að ná borginni aftur og uppbygging musterisins hófst á ný. Hægt er að lesa meira um þetta tímabil í sögu Ísraelsmanna í kaflanum: Forsaga gyðingdóms > Endurvígsla musterisins.

Rómverjar náðu borginni árið 63. e.Kr. og það var svo þegar Heródes mikli sat sem konungur í Júdeu að Jerúsalem var endurbyggð með miklum glæsileika. Frægust varð endurbygging hans á musterinu sem reis aftur af mun meiri glæsileika en áður. Ísraelsmenn reyndu þó að losna undan Rómverjum með uppreisn á árunum 66 – 70 e.Kr. Uppreisnin var  fljótlega brotin á bak aftur af Rómverjum og Jerúsalem lögð í rúst ásamt musterinu. Gyðingar voru aftur reknir í útlegð sem nú stóð í 2000 ár og gyðingar kalla dreifinguna eða diaspora enda dreifðust þeir víða um lönd.

Eftir seinni heimstyrjöldina unnu Sameinuðu þjóðirnar að því að gyðingar fengju að stofna eigið ríki í sínu forna föðurlandi. Árið 1948 var Ísraelsríki nútímans stofnað í Palestínu og Jerúsalem skipt á milli gyðinga og araba.

Gyðingar hafa hins vegar ekki fengið að reisa nýtt musteri á musterishæðinni því þar stendur moska múslima. Hins vegar eiga þeir athvarf við Grátmúrinn, sem er vesturveggur hins forna musteris og það eina sem enn stendur uppi af því. Gamli bærinn í Jerúsalem er ekki nema einn ferkílómetri að stærð en í honum er að finna nokkra af mikilvægustu helgistöðum Jerúsalem. Nefna má Grátmúrinn og Musterishæðina, sem eru mikilvægir staðir fyrir gyðinga, en þar er einnig að finna marga staði sem eru mikilvægir fyrir kristna menn og múslima. Gamli bærinn var settur á heimsminjaskrá UNESCO árið 1981 og 1982 fór hann einnig á lista yfir heimsminjar sem eru í eyðileggingarhættu.