Musterishæðin

Gyðingdómur / Tákn og helgir dómar / Musterishæðin

Sækja pdf-skjal

 

Ester Musterishæðin er trúarlegur staður inni í hinni gömlu borg Jerúsalem og er hinn allra helgasti staður gyðinga. Samkvæmt Talmúd (túlkun lögmálsins) er Musterishæðin staðurinn þar sem Abraham ætlaði að fórna syni sínum Ísak. Þar reisti Davíð konungur altari Guði til dýrðar og Salómon konungur lét byggja hið forna musteri. Um Davíð og Salómon má lesa meira í kaflanum: Forsaga gyðingdóms > Ísraelska konungsríkið.

Við uppbyggingu seinna musterisins lét Heródes mikli gera mikinn og þykkan undirstöðuvegg sem seinna musterið stóð á. Musterishæðin er því í dag stór og flöt steinbygging sem byggð var ofan á hæðina. Hliðarveggir hæðinnar eru faldir á bak við íbúðarhús á norðurhliðinni og norðurhluta vesturhliðarinnar, en í suðurhlutanum er Vesturveggurinn (Grátmúrinn) aðeins sýnilegur að hálfu ofan jarðar. Suður- og austurhlið hæðinnar eru hins vegar sýnilegar í nánast fullri hæð. Norðurhlutann af Vesturveggnum má sjá inni í göngum Vesturveggjarins sem voru grafin undir byggingunum.

Á miðri musterishæðinni er klettur sem er hæsti staður gömlu borgarinnar í Jerúsalem. Kletturinn hefur verið kallaður undirstöðusteinninn en samkvæmt Talmúda var heimurinn skapaður úr þessum kletti og fyrsti staðurinn í tilverunni. Hann er því það allra helgasta í augum gyðinga.

Skiptar skoðanir eru á því hvort gyðingar megi fara inn á musterishæðina en margir vilja meina að það sé með öllu bannað þar til Messías birtist og endurbyggir musterið í síðasta sinn.