Tvær meginstefnur

Búddadómur / Saga búddadóms / Tvær meginstefnur

Sækja pdf-skjal

 

Búddasiður greindist snemma í tvær meginstefnur: Theravadastefnuna og mahayanstefnuna.

Theravadastefnan er ráðandi í löndum Suður-Asíu eins og Sri Lanka, Burma, Tælandi og Kambódíu og er því oft kölluð suðurstefnan. Theravada þýðir á pali: leið öldunganna og er talin af fylgismönnum sínum vera næst upprunalegum kenningum Búdda og fyrstu öldunganna.

Fylgismenn theravadastefnunnar líta svo á að tilgangurinn með lífi þeirra sé að verða arhat, fullkominn dýrlingur sem hefur náð nirvana og mun ekki endurfæðast. Þessi stefna leggur því mikla áherslu á strangt klausturslíf og afneitun þess veraldlega. Samkvæmt theravadastefnunni er talið mjög ólíklegt að venjulegt fólk geti náð uppljómun heldur er talið að eingöngu munkarnir hafi tækifæri til þess þar sem þeir verji miklum tíma við hugleiðslu og leggi hart að sér við afneitun þess veraldlega. Theravadastefnan er því á köflum líkari heimspeki en átrúnaði.

Mahayanastefnan varð til á fyrstu öld f. Kr. með frjálslyndari túlkun á kenningum Búdda. Hún er ráðandi í löndum Norður-Asíu og austurlöndum fjær t.d. Kína, Japan, Kóreu, Tíbet og Mongólíu og er því oft kölluð norðurstefnan.

Fylgismenn mahayanastefnunnar trúa því að hver sem er geti orðið arhat eða boddhisatva, dýrlingur sem hefur frestað nirvana til að geta hjálpað öðrum að öðlast það einnig líkt og Búdda gerði. Þeir trúa því að uppljómun geti náðst á aðeins einu æviskeiði. Það eru mismunandi leiðir til að ná þessu takmarki eftir mismunandi deildum stefnunnar. Mahayanastefnan er trúarlegri í eðli sínu en theravadastefnan og í henni má finna hugmyndir um guðlegar verur, búdda og boddhisatva, helgiathafnir, töfrabrögð og notkun helgra hluta.

Vegna þess hve fáir eiga möguleika á því að öðlast uppljómun samkvæmt theravadastefnunni þá kalla fylgismenn mahayanastefnunnar stefnu sína stóra vagninn en theravadastefnuna kalla þeir litla vagninn.

Lamasiður

Á sjöundu öld barst búddadómur til Tíbets þar sem hann hefur þróast á mjög sérstakan hátt. Hægt er að lesa nánar um það í kaflanum um Dalai Lama og lamasið.