Verkefni:
verkefni 1
Verkefni 2

Ítarefni:
Áhrif fjölmiðla
Breytingar á ...
Einkatölvan
Er fylgst með okkur?
Fjölmiðlar
Fréttir og viðmið
Fréttir segja ...
Í fréttum er ...
Gagnvirkni og
sýndarveruleiki

Hvað er frétt?
Netið
Notkun upplýsinga
Sigur tölvunnar
Skráning og
notkun upplýsinga

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
XUpplýsingasamfélagið
  Er fylgst með okkur?
 

Margir hafa áhyggjur af hvernig hægt er að safna saman upplýsingum um einstaklinga og nota þær á ýmsa vegu. Ef þú notar krítarkort geta greiðslukortafyrirtækin fylgst nákvæmlega með hvar og í hvað þú eyðir peningunum þínum. Ef þú átt GSM farsíma geta símafyrirtækin séð hvar þú ert staddur/stödd hverju sinni, ef kveikt er á símanum. Til dæmis hefur tölvuútskrift af GSM símanotkun verið notuð til að leysa sakamál hér á landi. Og í tölvuvæddum heilbrigðisskýrslum er að finna upplýsingar um heilsufar þitt.

Hefur þú einhvern tíma velt fyrir þér hversu miklar upplýsingar eru til um þig í tölvutæku formi? Hvað ef einhver kæmist nú í þessar upplýsingar og ætlaði sér að nota þær gegn þér? Einkunnirnar þínar, allar læknaheimsóknirnar, afskipti lögreglu af þér, heimilisaðstæður, neysluvenjur, samskipti sem þú átt við aðra með hjálp tölvunets - allt eru þetta upplýsingar sem hægt er að nálgast. Margir hafa áhyggjur af þessari þróun. Þeir óttast að tæknin gangi of nærri friðhelgi einkalífsins og persónuvernd.

Friðhelgi einkalífsins er vernduð í hegningarlögum. Hver sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi sem er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.

Tenging upplýsinga
Nú á dögum er upplýsingum safnað á rafrænu formi í skrár sem kallast gagnabankar. Þjóðskráin er dæmi um gagnabanka, en þar er að finna ýmsar upplýsingar um fólk, svo sem kennitölu og heimilisfang. Við fæðingu fékkst þú kennitölu sem fylgir þér alla ævi. Þú notar kennitölu þína í samskiptum við opinbera aðila og fyrirtæki, svo sem skattayfirvöld, sjúkrahúsinnlagnir, skráningu í skóla, banka, símafyrirtæki og svo framvegis.

Mörg fyrirtæki notfæra sér rafræna gagnabanka (gagnagrunna) við markaðssetningu vöru eða þjónustu. Eitt dæmi er þegar happdrættin senda út happdrættismiða á símanúmer. Annað dæmi er bókaforlag, sem er að reyna að selja bók um tamningu hesta. Fyrsta skrefið er að komast að hverjir gætu hugsanlega haft áhuga á bókinni. Forlagið kaupir eða reynir að komast yfir gagnagrunn með nöfnum og heimilisföngum allra bænda á Íslandi, annan yfir hestaeigendur, þann þriðja yfir ættingja allra hestaeigenda og svo framvegis. Þegar gagnagrunnunum hefur verið steypt saman í eina heild (sem er mjög auðvelt með tölvum) fæst listi yfir hugsanlega kaupendur bókarinnar. Hver og einn fær síðan sent persónulegt bréf, stílað á nafn með tilboði um að kaupa bókina.

Tölva er verkfæri sem notað er til að meðhöndla upplýsingar. Heili tölvunnar kallast örgjafi, en það er tölvukubbur með mörg þúsund smárum eða örflögum.
Tölvan getur staðið sem sjálfstæð eining eða tengd neti. Í netkerfi eru margar tölvur tengdar saman með sérstökum köplum. Kosturinn við slíkt kerfi er að þá geta margir einstaklingar notað forritin sameiginlega og skipst á upplýsingum. Við getum líka notað símalínur, örbylgjur eða breiðband til að tengja tölvur saman.

Í gagnagrunni er rafrænu talnaefni og rafrænum skrám komið fyrir á skipulagðan hátt. Hægt er að líkja gagnagrunni við gríðarstóra spjaldskrá. Gagnagrunnurinn hefur það framyfir spjaldskrána að hægt er að flokka upplýsingar á margvíslegan hátt, leita eftir ákveðnum upplýsingum og skoða gögn á myndrænt. Hægt er að tengja saman tvo eða fleiri gagnagrunna (samkeyra) og búa til nýjan gagnagrunn úr þeim.

Landshagir 1999:228

Rafræn skilríki
Hér á landi sem víðar hafa átt sér stað umræður um hvort ekki sé tímabært að taka í notkun sérstök rafræn skilríki fyrir einstaklinga. Hugmyndin er að á rafrænu skilríkjunum sé örgjafi sem innihaldi fjölmargar upplýsingar um eigandann. Rafræna skilríkið getur í senn verið ökuskírteini, greiðslukort, vegabréf, símkort, bókasafnskort, nemendafélagsskírteini, lykill að heimilinu þínu, herbergi og fjölda margt annað. Í stuttu máli sagt, rafræna kortið getur innihaldið allar hugsanlegar upplýsingar um þig.

Kostirnir við rafræn skilríki eru margir, en einnig ókostirnir. Margir óttast hvað geti gerst þegar búið er að safna saman miklu magni upplýsinga um hvert og eitt okkar á einn stað. Hverjar gætu afleiðingarnar orðið ef kortinu er stolið og þjófnum tekst að brjóta kóðann og komast í upplýsingarnar? Við vitum að tölvuþrjótum (hökkurum) hefur tekist að brjótast inn í tölvukerfi fyrirtækja á borð við Microsoft og opinberra stofnana sem Pentagon, höfuðstöðva bandaríska varnarmálaráðu-neytisins.

Ungir hakkarar frá Wales stálu greiðslukortanúmeri Bill Gates ásamt um 26.000 öðrum númerum

Tveir velskir piltar á nítjánda ári voru handteknir um helgina fyrir að brjótast inn á heimasíður netverslana, stela þar rúmlega 26.000 greiðslukortanúmerum og misnota þau. Talið er að tapið vegna aðgerða Walesverjanna geti verið rúmlega 3 milljónir dollara, eða um 220 milljónir króna. Meðal eigenda greiðslukortanúmeranna stolnu var enginn annar en hugbúnaðarkóngurinn Bill Gates, ríkasti maður heims. Piltarnir höfðu sent nákvæmar upplýsingar um greiðslukort, þar á meðal kortanúmer Gates, til vefmiðilsins NBCi. Vefsíðurnar sem þeir brutust inn á voru alls níu og voru þær vistaðar í Bandaríkjunum, Kanada, Taílandi, Japan og Bretlandi.

Annar piltanna heitir Raphael Gray en hinn hefur ekki verið nafngreindur ennþá. Gray titlaði sig sem ,,dýrling netviðskipta" og sagðist bara hafa viljað benda mönnum á hversu óöruggar margar netviðskiptasíður eru í raun og veru. ,,Ég hef verið heiðarlegur en enginn hefur hlustað á mig," sagði Gray. Einhverjir voru þó að fylgjast með piltunum, því velska lögreglan, í samvinnu við FBI, komst að því hverjir voru þarna á ferð og lét til skara skríða um helgina. Gray og félagsi hans voru yfirheyrðir um helgina en var síðan sleppt gegn tryggingu.

DV. 28 mars 2000

Margir óttast að rafræn skilríki séu ekki nógu örugg og því beri ekki að taka þau upp í íslensku samfélagi. Stuðningsmenn rafrænu skírteinanna benda hins vegar á að öryggi við notkun slíkra korta sé nokkuð mikið því handhafi þess verði að nota lykilorð til að geta notað kortið. Þeir benda einnig á að nú þegar sé hægt að nálgast viðkvæmar upplýsingar um þig með því einu að gefa upp kennitölu þína. Auðvelt sé að nálgast kennitölur, en þær er meðal annars að finna í Þjóðskránni.

Upplýsingalögin
Árið 1996 samþykkti Alþingi lög sem hafa að geyma reglur um almennan aðgang fólks að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Þú átt sem sagt rétt á að fá að skoða öll opinber gögn að undanskildum upplýsingum um öryggi ríkisins eða varnarmál. En það eru líka í gildi lög frá árinu 1989 sem í daglegu tali eru nefnd tölvulögin. Þau taka til kerfisbundinnar skráningar á annars vegar sérlega viðkvæmum persónuupplýsingum, til dæmis um kynþátt, kynlíf, heilsufar, trúar- og stjórnmálaskoðanir og fleira, og hins vegar á öðrum persónuupplýsingum. Meginreglan er sú að óheimilt sé að skrá viðkvæmar persónuupplýsingar nema tölvunefnd hafi gefið leyfi sitt eða að þú hafir sjálfur/sjálf samþykkt að upplýsinganna sé aflað. Dómsmálaráðherra skipar fimm manns í tölvunefnd til þess að hafa eftirlit með framkvæmd laganna.

Þú hefur sem sé ekki leyfi til að gera könnun á einkalífi samnemenda þinna nema að sækja um samþykki Tölvunefndar áður. Ef þú vilt afla þér frekari upplýsinga geturðu skoðað heimsíðu tölvunefndar.