Sýnirnar fjórar

Búddadómur / Líf Siddharta Búdda / Sýnirnar fjórar

Sækja pdf-skjal

 

Abraham Suddhodana konungur vildi að Siddharta sonur sinn yrði voldugur og mikill konungur. Hann óttaðist hins vegar að Siddharta myndi frekar kjósa að verða kennari eins og Asita hafði spáð og til þess að koma í veg fyrir það reyndi konungurinn að vernda son sinn fyrir öllu því slæma í lífinu. Siddharta fékk allt sem hugur hans girntist og meira til: þrjár stórkostlegar hallir, fagra eiginkonu og veislur á hverju kvöldi. En þrátt fyrir þetta allt leiddist honum oft og varð eirðarlaus. Hann var viss um að lífið byði upp á meira en auðæfi og lúxus. 

Dag einn þegar Siddharta var 29 ára bað hann vagnstjórann sinn Channa að fara með sig í ferðalag um sveitirnar. Þeir höfðu ekki farið langt þegar Siddharta sá gamlan gráhærðan mann við vegkantinn. Hann var hokinn í baki, hrukkóttur í framan og tannlaus. Siddharta varð hræddur og spurði þjóninn sinn hvað þetta væri, gæti verið að þetta væri maður? Channa útskýrði fyrir honum að þetta væri víst maður en hann væri gamall og líkami hans farinn að gefa sig. Á endanum yrði allt fólk gamalt, líka hann sjálfur, Siddharta og konan hans. Siddharta varð mjög sorgmæddur við að heyra þetta og bað um að fara strax heim þar sem hann sat lengi einn og hugsaði um ellina.

Næsta dag fóru Siddharta og Channa aftur út úr hallargarðinum. Í þetta sinn sáu þeir mann sem lá á jörðinni og engdist sundur og saman af sársauka. Hann öskraði af kvölum og líkami hans var þakinn furðulegum blettum. Siddharta hrópaði á Channa og spurði hvað væri að þessum manni. Channa sagði honum að maðurinn væri bara veikur og að allir menn yrðu einhvern tíma veikir, meira að segja Siddharta gæti orðið veikur. Siddharta spurði hvort það væri ekkert hægt að gera til að koma í veg fyrir það en Channa sagði að svo væri ekki. Siddharta varð þá mjög sorgmæddur og fór aftur heim til sín þar sem hann hugsaði mikið um veika manninn og þjáningar hans.

Þriðja daginn sem Siddharta fór úr hallargarðinum sá hann hóp af mönnum með börur þar sem lá hreyfingarlaus maður. Í kringum börurnar var fjöldi fólks sem gekk með og grét hástöfum. Siddharta spurði Channa hvers vegna maðurinn hreyfði sig ekkert og hvers vegna allt fólkið væri að gráta. Channa sagði honum þá að maðurinn væri dáinn og að fólkið gréti vegna þess að þetta væru vinir hans og ættingjar og þau væru sorgmædd yfir því að þau myndu aldrei sjá hann aftur. En þau vissu að þau gætu ekkert gert því einn dag munum við öll deyja.

Þegar Siddharta kom heim hugleiddi hann lengi allar þær þjáningar og óhamingju sem hann hafði séð. „Hver er tilgangurinn með því að fæðast ef við þurfum svo öll að eldast, veikjast og deyja?“ hugsaði hann með sjálfum sér.

Fjórða daginn sem Siddharta fór úr hallargarðinum hitti hann fátækan munk. Hann var berfættur, með rakað höfuðið og klæddur í appelsínugulan kyrtil. Munkurinn virtist mjög glaður og friðsæll. Siddharta spurði Channa hvers konar maður þetta væri og hvers vegna hann væri svona glaður þó að hann ætti ekki neitt. Channa sagði honum að þetta væri helgur maður. Hann hefði séð allan sársaukann í heiminum og hefði því farið frá fjölskyldu sinni og eignum til að leita að innri hamingju. Siddharta varð glaður og hugsaði að loksins vissi hann hvað hann langaði til að gera. Hann ætlaði að fara að heiman og leita að leið til að enda þjáningarnar sem hann hafði séð.

Um nóttina kvaddi Siddharta sofandi konu sína og nýfæddan son með kossi og fór úr höllinni í von um að finna leið til að enda þjáningar.