Fæðing Búdda

Búddadómur / Líf Siddharta Búdda / Fæðing Búdda

Sækja pdf-skjal

 

Abraham Fyrir meira en 2500 árum ríkti vitur og góður konungur að nafni Suddhodana ásamt drottningu sinni Maya í litlu ríki sem hét Sakyas í Norður-Indlandi, þar sem nú er landið Nepal. Þau bjuggu í fallegri höll í höfuðborg landsins Kapilavatthu. Nótt eina, þegar það var fullt tungl, dreymdi Maya að fjórir englar kæmu til hennar og bæru hana út að á þar sem þeir böðuðu hana, báru á hana ilmvötn og klæddu hana í himnesk klæði og blóm. Að því loknu birtist henni hvítur fíll sem hélt á hvítu lótusblómi í rananum. Á þessum slóðum er hvítur fíll tákn hins guðlega þannig að þegar Maya vaknaði vissi hún að þessi draumur innihéldi mikilvæg skilaboð. Hún sagði eiginmanni sínum frá draumnum og hann kallaði til sín fjóra vitringa til að ráða drauminn. Vitringarnir sögðu konunginum að gleðjast því drottningin ætti von á syni og hann yrði mjög merkur og góður maður.

Það var hefð á Indlandi á þessum tímum að konur fæddu börn sín á heimili foreldra sinna. Þegar að því kom að barnið ætti að fæðast lagði Maya drottning því af stað til foreldra sinna sem bjuggu í næsta landi, nokkurra daga leið frá Kapilavatthu. Á miðri leið fóru þau í gegnum undurfagran garð við rætur Himalayafjalla sem hét Lumbini garður og Maya ákvað að hvíla sig þar. Þetta var fagurt kvöld í maímánuði og tunglið var fullt og þar sem Maya drottning sat undir salatré og hvíldi sig fæddi hún heilbrigðan son.

Gamlar helgisagnir segja að þegar barnið fæddist hafi trén í garðinum blómstrað, mikill jarðskjálfti hafi skekið jörðina, allur heimurinn hafi verið uppljómaður í himneskri birtu og um allt landið hafi fólk fyllst innri frið og gleði. Rétt eftir að barnið fæddist stóð það upp og gekk sjö skref áfram og við hvert skref þess óx hvítt lótusblóm. Í sjöunda skrefinu stoppaði barnið og sagði hátt og skýrt að hann væri bæði elstur og vitrastur manna og að þetta væri síðasta endurfæðing hans.

Það var mikil gleði í Kapilavatthu þegar drottningin sneri heim með son sinn sem fljótlega var gefið nafnið Siddhartha sem þýðir sá sem fær óskir sínar uppfylltar.  Stuttu eftir fæðinguna heimsótti gamall maður að nafni Asita höllina en hann var þekktur um allt Indland fyrir visku sína. Hann horfði lengi, lengi á barnið og fór svo allt í einu að gráta. Konungurinn spurði hann áhyggjufullur hvort eitthvað væri að barninu en Asita bað hann að hafa ekki áhyggjur. „Sonur þinn mun verða mjög merkur maður. Hann mun standa frammi fyrir erfiðum valkostum. Hann getur orðið öflugur leiðtogi, mesti konungur sögunnar eða hann getur orðið mjög góður og merkur kennari sem sýnir fólki hvernig á að lifa í friði og ást. Ég er að gráta vegna þess að ég er mjög gamall maður og ég er sorgmæddur yfir því að ég mun ekki lifa til að læra neitt af honum.“

Fæðingu Búdda er fagnað hjá búddatrúarfólki um allan heim með Vesak hátíðinni, en hjá fylgjendum theravadastefnunnar er sú hátíð einnig til að fagna uppljómun og dauða hans.