Lótusblóm

Búddadómur / Tákn og helgir dómar / Lótusblóm

Sækja pdf-skjal

 

Lótusinn er tákn andlegs hreinleika og er eitt af þekktustu táknum búddadóms. Goðsagnir af fæðingu Siddharta prins (Búdda) segja frá því að sem nýfætt barn hafi hann staðið upp og gengið sjö skref fram á við og í hverju skrefi hafi sprottið lótusblóm.

Lótusinn er vatnablóm og rætur hans eru ofan í drullunni á vatnsbotninum en ofan á vatninu flýtur fallegt blóm. Líkt og rætur lótusins eru í drullunni þá er flest mannfólk ekki með hreina sál en þrátt fyrir það þá hafa menn samt möguleikann til að öðlast uppljómun og fullkomnun líkt og blóm lótusins.  Moldin er þannig tákn fyrir hið mennska líf og lokað blóm lótusins er eins og hjarta mannsins sem hefur möguleika til uppljómunar ef hann tileinkar sér boðskap Búdda. Þegar maðurinn hefur gert það þá opnast blómið og opinn lótus er því tákn uppljómunar og fullkomleika. Þar af leiðandi eru Búddar og boddhisatvar oft sýndir sitjandi á opnu lótusblómi.

Mismunandi litaðir lótusar hafa mismunandi merkingu:

Hvíti lótusinn er tákn uppljómunarinnar, stig andlegs hreinleika og fullkomnunar. Hann er yfirleitt með átta lauf eins og hinn göfugi áttfaldi stígur.

Bleikur lótus er tákn efsta guðdómsins. Hann er æðsti lótusinn og tákn Siddharta Búdda.

Rauður lótus er tákn ástar, ástríðna, samúðar og annarra eiginleika hjartans. Þessi lótus er tengdur boddhisatvanum Avalokitesvara.

Blár lótus er tákn viskunnar og um sigur hins andlega. Hann er alltaf hálfopinn og miðja hans sést aldrei. Þetta er lótus sem er einn af eiginleikum Prajnaparamita, líkamningar „hinnar fullkomnu visku“.

Fjólublái lótusinn tengist hinum dulræna lótus og það eru aðeins örfáar deildir búddadóms sem nota hann. Blómið á fjólubláum lótus er ýmist lokað eða opið og er oft notað sem virðingarvottur í bolla eða á bakka.