Búddalíkneski

Búddadómur / Tákn og helgir dómar / Búddalíkneski

Sækja pdf-skjal

 

Eitt þekktasta tákn búddadóms eru myndir eða styttur af Búdda sjálfum en þær er að finna bæði á tilbeiðslustöðum og á heimilum. Búddamyndirnar eiga að blása hugmyndum um helgidóminn í brjóst búddista sem eiga að bera virðingu fyrir þeim. Búddistar dást því oft að Búddamyndum og hneigja sig fyrir þeim. Þær eru hinsvegar ekki skurðgoð og það má ekki tilbiðja þær. Búdda bað fylgjendur sína um að tilbiðja ekki neina jarðneska hluti sem hann myndi skilja eftir þegar hann færi og í margar aldir notuðu búddistar aðallega tákn eins og dharmahjólið og  fótspor Búdda til að minna sig á hann.  Það var svo ekki fyrr en á 1. öld eftir Krist sem að fyrstu myndir af Búdda sjálfum verða til og sú mynd sem hefur haft ráðandi áhrif á það hvernig fólk ímyndar sér Búdda varð ekki fullmótuð fyrr en um það bil 400 árum síðar.

Útlit Búdda var hinsvegar skrásett aðeins fyrr en í einni af sútrunum er útliti hans lýst mjög nákvæmlega. Þar eru talin upp 32 megineinkenni og 80 önnur einkenni hans. Þar segir meðal annars að Búdda sé hávaxinn með langar hendur og fingur. Hann er herðabreiður, með stóran brjóstkassa og breiða lærvöðva og húð hans er gyllt að lit. Hárið er svart, fíngert og liðað. Augun eru stór og blá og hann er með löng og falleg augnhár. Á iljunum er hann með dharmahjólið og á milli augabrúnanna er blettur með hvítum hárum.

Ef þið skoðið mismunandi líkneski af Búdda sjáið þið líklega að hann er með mismunandi handbendingar. Þessar handbendingar eða mudrur segia til um hvað tiltekið líkan stendur fyrir eða hvað Búdda eigi að vera að gera á því. Dæmi um slíkar handbendingar eru að ef fingur annarrar handar liggja ofan á fingrum hinnar handarinnar með lófann opinn upp á við og þumlarnir snertast fyrir ofan lófana, líkt og á myndinni hér fyrir ofan, þá er það tákn hugleiðslu og leiðarinnar til uppljómunar. Annað dæmi er að ef hægri hönd Búdda snertir jörðina mjúklega en hin vinstri er lárétt með lófann opinn þá er það tákn um hvernig Búdda yfirvann hindranir og freistingar á leið sinni til uppljómunar. Hægt er að lesa betur um það í kaflanum Líf Siddharta - Búdda > Uppljómunin.