Stúpur

Búddadómur / Tákn og helgir dómar / Stúpur

Sækja pdf-skjal

 

Elstu tegundir tilbeiðslustaða búddadóms eru svokallaðar stúpur sem eru litlar byggingar reistar til að minna á Búdda og kenningar hans. Útlit þeirra er nokkuð mismunandi eftir tímabilum og löndum en upphaflega þróuðust þær út frá indverskum grafhýsum. Elstu stúpurnar eru því bjöllulaga haugar sem voru settir yfir jarðneskar leifar Búdda eða boddhisatva. Síðan var byggt yfir hauginn og úr urðu turnlaga byggingar. Síðar fóru menn einnig að byggja stúpur yfir einhverja gripi eða hluti svo sem bækur með kenningum Búdda.

Þegar búddadómur barst til Kína og Japan breyttist hönnunin á stúpunum og þær urðu bæði mjórri og hærri. Þær eru því í raun turnar með 3-13 hæðir (þó alltaf oddatölu) og oft eru þær með 8 hliðar. Stundum eru þær málaðar og skreyttar með þakskífum. Þessar tegundir stúpa eru kallaðar pagódur.

Pílagrímar heimsækja oft merkar stúpur enda eru þær margar álitnar helgar. Ein þekkt stúpa er í Sri Lanka og kallast Ruwanweliseya eða Hin mikla stúpa í Sri Lanka. Hún þykir einstaklega tignarleg en hún er 90 metra há og er elst hinna þriggja stærstu fornu steinbygginga í heiminum. Hún var byggð á 2. öld f. Kr. og hönnun hennar var fyrirmynd fjölda annarra helgiskrína. Hér til hliðar er tengill á mynd af Hinni miklu stúpu.

Búddistafélag Íslands hefur reist stúpu í Smárahverfi í Kópavogi og er hún notuð af þeim við mörg hátíðleg tækifæri. Hægt er að lesa aðeins meira um íslensku stúpuna í kaflanum Að vera búddatrúar > Hátíðir.

 

Myndir af Búddastúpunni í Kópavogi