Karmalögmálið

Búddadómur / Kennisetningar og reglur / Karmalögmálið

Sækja pdf-skjal

 

Búddadómur og hindúasiður eiga ýmislegt sameiginlegt m.a. hugmyndina um karma. Karma þýðir verknaður og karmalögmálið gengur út á það að allt sem fólk gerir hefur afleiðingar. Þannig fær fólk hegningu fyrir slæm verk en umbun fyrir góð verk.  Búddisti reynir því að forðast að vinna öðrum skaða á einn eða annan hátt þar sem það myndi valda því að honum yrði refsað í næsta lífi og gert erfiðara fyrir að losna frá hjóli endurfæðinganna.

Ef ástæðan fyrir gjörðum okkar er slæm t.d. græðgi eða vanþekking þá eru afleiðingarnar slæmar en ef ástæðan er góð þá verða afleiðingarnar góðar. Fólk sem til að mynda er haldið reiði, öfund eða grimmd, sem sýnir öðrum virðingarleysi eða veldur deilum manna á milli mun því þjást síðar í lífinu eða í síðari lífum. Fólk sem hins vegar sýnir samúð, virðingu eða örlæti mun öðlast hamingju í framtíðinni.

Trúin á endurholdgun er svo nátengd trúnni á karma en búddistar líta svo á að við fæðumst sífellt aftur og aftur og að það hafi áhrif á hver við erum í þessu lífi hvernig við vorum í því fyrra. Þar sem lífið er fullt af þjáningum þá er það markmið hvers búddista að losna undan þessari hringrás og öðlast nirvana. Leiðin til þess er að fylgja kenningum Búdda.