Helgirit

Búddadómur / Kennisetningar og reglur / Helgirit

Sækja pdf-skjal

 

Búdda skráði ekki niður kenningar sínar heldur lærðu fylgjendur hans þær utanbókar og þær bárust frá manni til manns í hundruðir ára. Þá var svo komið að menn voru farnir að deila um kenningarnar og sáu þörfina fyrir því að skrá þær í letur. Nú hefur þetta þróast svo að hinar mismunandi stefnur búddadóms eiga sér hver sitt safn helgirita sem eru með mismunandi áherslum og skilgreiningum á kenningum Búdda. Hér að neðan er fjallað stuttlega um helstu helgirit theravada- og mahayanstefnanna.

Rit theravadastefnunnar

Fyrstu helgiritin voru skráð á 1. öld f.kr. eða 400 árum eftir dauða Búdda og kallast Tripitaka eða Körfurnar þrjár. Fylgismenn theravadastefnunnar líta á körfurnar þrjár sem sín helgirit. Eins og nafnið gefur til kynna skiptast körfurnar í þrennt:

Vinaya pitaka eða karfa regluagans. Í henni er að finna reglur fyrir munka og nunnur.

Sutta pitaka eða karfa kenningarinnar. Í henni er að finna elsta hluta kenninga Búdda til að mynda kenningarnar um hin fjögur göfugu sannindi og hinn göfuga áttfalda veg. Í henni eru einnig Jakatasögurnar  sem er safn fjölda dæmisagna, sem Búdda notaði til að útskýra kenningar sínar, og Dhammapada eða vegur réttsýninnar, sem er safn spakmæla sem Búdda hafði mælt. Upphafsorð Dhammapada eru eftirfarandi:

     Við erum það sem við hugsum.
    Allt sem við erum rís með hugsunum okkar.
    Með hugsunum okkar sköpum við heiminn.
    Ef þú mælir og hegðar þér með óhreinum huga
    mun ógæfan elta þig
    eins og hjólið uxann sem dregur vagninn.

Abhidhamma pitaka eða karfa fræðihugtakanna. Í henni er að finna nánari útskýringar á kenningum Búdda, ætluð þeim sem eru lengra komnir í fræðunum.

Rit mahayanstefnunnar

Prajnaparamita-sútrurnar voru skrifaðar á árunum 100 f.kr. til 600 e.kr. Þær eru helgirit þeirra sem fylgja mahayanstefnunnar og í þeim er að finna leiðsögn til fullkomnar visku eða prajna. En orðið prajnaparamita merkir fullkomnun viskunnar á sanskrít. Þarna er vísað til visku boddhisatva sem er meiri en viska heimsins og skilur til fulls að það er ekki til neitt varanlegt sjálf. Tvær vinsælustu Prajnaparamita-sútrur eru Demantasútran og Hjartasútran.

Demantasútran er mjög stutt sútra sem hægt er að lesa á aðeins 40 mínútum. Í henni er samtal milli Búdda og eins fylgismanns hans þar sem Búdda leggur áherslu á að ekkert sé raunverulegt heldur að allt í heiminum sé tálsýn. Á breska þjóðarbókasafninu er að finna eintak af Demantasútrunni frá árinu 868 en það er álitin elsta prentaða bók í heiminum.

Hjartasútran er ekki nema nokkrar blaðsíður en tekur saman helstu lykiþætti mahyanastefnunnar svo sem leið boddhisatva til nirvana og eðli mannsins.

Lótussútran er frá 200 e.kr. og er líklega mikilvægasta rit mahayanstefnunnar en í henni er að finna það sem mahayana-búddistar telja vera lokakenningu Búdda og er því mjög mikilvæg í augum þeirra. Í sútrunni er sagt frá ræðu sem Búdda heldur á samkomu af búddum, boddhisatvum og öðrum guðlegum verum. Í ræðunni leggur hann áherslu á mikilvægi þess að verða boddhisatva og annað sem mahyanstefnan leggur áherslu á.

Eftirfarandi er vers úr 16. kafla Lótussútrunnar:

     Til að bjarga lifandi verum,
    er ráðlegast að það muni líta út fyrir að ég hverfi í nirvana
    en í raun og veru mun ég ekki hætta að vera til.
    Ég er alltaf hér að kenna lögmálið.
    Ég er alltaf hér,
    en með yfirnáttúrulegum kröftum mínum
    mun ég sjá til þess að lifandi verur í einfaldleika sínum
    sjái mig ekki einu sinni þegar ég er nálægt þeim.