Daglegt líf

Búddadómur / Siðir / Daglegt líf

Sækja pdf-skjal

 

Algengt er að búddistar hafi altari heima hjá sér. Á því stilla þeir upp Búddalíkneski ásamt myndum af frægum munkum. Þetta er gert til að vernda húsið og færa íbúum þess gæfu.

Þegar búddistar eignast nýtt hús eða bíl er oft haldin veisla og munkum boðið til að vígja nýju eignina. Þetta er gert til að færa íbúum þess blessun og verja fyrir áföllum.

Búddistar mega halda upp á ýmsar trúarlegar hátíðir þeirra landa sem þeir búa í. Á Íslandi halda þeir til dæmis upp á jólin eins og flestir Íslendingar, með því að hitta sína nánustu, borða saman og gefa gjafir. Búddistum finnst þetta falleg og góð hefð í skammdeginu. Á páskunum fá þeir sér súkkulaðiegg þó svo að páskarnir sem slíkir hafi enga merkingu hjá þeim.

Í mörgum löndum Asíu er ekki hefð fyrir því að halda upp á afmæli sitt á sama hátt og á Íslandi. Algengt er að afmælisbarnið fari með mat, blóm og peninga til munksins síns á afmælisdeginum. Börn af asískum ættum sem búa á Íslandi halda þó afmælisveislu eins og aðrir íslenskir krakkar.