Hjónaband

Búddadómur / Siðir / Hjónaband

Sækja pdf-skjal

 

Þar sem að Búdda sjálfur yfirgaf konu sína og fjölskyldu til þess að gerast farandmunkur þá er erfitt að leita til hans eftir fyrirmyndum í tengslum við hjónabandið. Sjá nánar í kaflanum Líf Siddharta - Búdda > Sýnirnar fjórar. Hefðir búddista í tengslum við hjónavígslu og hjónaband eru því mismunandi eftir löndum og fylgja þær frekar öðrum trúarbrögðum landsins eða fornum venjum og siðum.

Algengt er þó að þessar athafnir fari fram í musterum við blessun munkanna eða að þeim sé boðið þangað sem brúðkaupið er haldið. Sums staðar er bómullarþráður vafinn umhverfis búddalíkneskið og alla viðstadda og munkarnir lesa helga texta og fara með blessunarorð. Að því loknu klippa þeir tvo spotta af bandinu og binda annan um úlnlið brúðgumans sem svo bindur hinn spottann um úlnlið brúðar sinnar þar sem búddamunkar mega ekki snerta konur. Þessir þræðir eru tákn um sameiningu brúðhjónanna og þau eiga að ganga með þá þar til þeir detta af.

Á Íslandi giftir margt búddatrúarfólk sig í kirkju ef makinn er kristinn. Þeir eru ekki að skipta um trú með þessu, heldur finnst þetta bara eðlilegt. Í búddadómi er ekkert sem mælir gegn því að giftast á þennan hátt þar sem trú búddista er talin eiga sér stað í hjarta þeirra. Stundum gifta þau sig svo aftur að sið þeirrar þjóðar sem búddistinn er frá.